Back in USA

20 Júl

Jæja, ég er komin aftur í hitann og svækjuna hérna í Princeton eftir frábæra ferð til Íslands með gæsunum, giftingum, mikkaboði, sundi og afslöppun. Ég verð nokkur ár að melta þessa ferð enda fannst mér hún bæði örstutt og ótrúlega löng. Fólk var búið að segja við okkur að það væri nú dálítið öðruvísi að vera gift en hvorugt okkar fann nokkurn mun enda erum við búin að vera klesst saman í næstum 10 ár. Kannski kemur það seinna.

Túristamynd - takið eftir blóminu

Það var erfitt að skilja Geir og kisu eftir og ekki hjálpaði til að Snæfellsjökull skartaði sínu fegursta þegar ég flaug frá Keflavík. Einhvern veginn er það þó alltaf þannig að þegar ég er komin upp í vél þá verður þetta allt betra og þó ég hafi aldrei búið ein þá lærist það fljótt. Erfiðast er að elda rétta skammta en ég hef nú aldrei verið flink við það hvort eð er. Við komuna var ég sótt af housesitterunum og þau bjuggu hérna hjá mér ásamt tveimur loðnum kisum og talandi páfagauk fyrstu dagana. Það gafst því eiginlega ekki tóm til að vera með heimþrá. Páfagaukurinn, Bird, gat hermt eftir reykskynjara, síma, bílum og eigendum sínum og var einstaklega taugaveiklaður.

Bird litli taugaveiklaði

Nú er svo planið að vinna eins og brjálæðingur by day og vinna upp nokkur ár af gelgjuþáttum by night…spennandi! Skelli inn nokkrum myndum úr ferðinni. Sumar fékk ég lánaðar hjá öðrum og þakka fyrir það!

Inga gæs sæl og glöð með Kvennahlaupsárangurinn - Mynd frá Mæju

Næst vel ég armbeygjukeppni - Mynd frá Helgu G

Kajak! - Mynd frá Helgu G

Awkward family photo framtíðarinnar? - Mynd frá Guðrúnu Helgu

Geir og David við Seljalandsfoss

Guðný og Kiddi yndislegu brúðhjón

Inga og Kári yndislegu brúðhjón

Auglýsingar

Jóhann Sigurðardóttir í SNL

1 Feb

Ég er strax farin að hlakka til að lesa moggabloggin á morgun…

Salmonella men on planet porno

24 Jan

Nei, þetta er ekki spam heldur titill á smásagnasafni sem ég er að lesa núna. Er bara búin að lesa eina sögu (því miður ekki titilsöguna) og safnið lofar góðu hingað til. Vantaði snappy titil á innihaldslausa færslu sem hefur þann eina tilgang að friða óþreyjufullt ættmenni (nefni engin nöfn) fram að næstu færslu sem ég lofaði henni að ég myndi skrifa. Og hættu nú að suða! Læt líka fylgja papparassamynd sem ég tók af íkorna í garðinum okkar.

dsc01818_cropped

Fjörulalli fundinn

5 Ágú

http://en.wikipedia.org/wiki/Montauk_monster

ég hélt samt að þeir væru líkari kindum.

Moskítóbit og ókeypis húsgögn

3 Júl

Eins og sumir vita er ég mikið fyrir ókeypis hluti. Þeir hafa eitthvað óútskýranlegt aðdráttarafl í mínum augum og meira að segja þó að ég hafi enga þörf fyrir þá eða finnist þeir ekkert spes flottir þá þarf ég alltaf að draga heim allt sem er ókeypis, bara því það er ókeypis. Hverfið okkar er algjört gósenland fyrir ókeypisóða því að það er svo mikið rennerí á leigjendunum. Þegar fólk flytur og getur ekki tekið með húsgögnin sín af einhverjum ástæðum þá er vaninn að setja húsgögnin annaðhvort á gangstéttarbrúnina eða við ruslatunnurnar. Þessi siður hefur reynst okkur Geir vel þar sem sennilega helmingurinn af húsgögnunum okkar er úr ruslinu. Nú þegar við erum búin að vera hér í 2 ár þá er samt litla kotið eiginlega orðið troðfullt og ekki pláss fyrir fleiri húsgögn. Það þýðir samt ekki að ég sé hætt að draga inn ókeypis húgögn, ó nei! Í þarseinustu viku náði ég í 2 borð, 4 stóla, 2 lampa, spegil, viftu, bókahillu og blómavasa og gaf vinkonu minni sem er nýflutt inn í nágrennið (góð leið til að fá útrás fyrir ókeypissýkina). En til að toppa sjálfa mig í ruglinu þá fann ég í ruslinu amerískasta sófa veraldar. Tryllitækið er þriggja sæta og þar af eru 2 sætin lazy-boy, miðsætið er síðan borð með götum fyrir stóra kók og fjarstýringum fyrir hita og nudd í sætin. Við eigum lítinn og sætan IKEA svefnsófa sem hefur dugað okkur mjög vel þó það sé ekkert spes gaman að horfa á sjónvarpið í honum en ókeypis-æðið sem runnið var á mig gerði það að verkum að ég sannfærði Geir um að tryllti ameríski sófinn væri miklu betri og fullkominn fyrir okkur. Við hófumst því handa við að drösla sófanum inn í íbúðina. Það gekk vægast sagt ekki vel. Eftir 20 mínútur af tilfæringum með tilheyrandi pirringi og skrámum vorum við eiginlega sannfærð um að hlussan kæmist aldrei inn og vorum þar að auki búin að skemma eina hliðina. Semsagt við vorum eiginlega búin að gefast upp og ætluðum bara að henda sófanum aftur. En þá kom Ned Flanders og bauð okkur hjálparhönd. Ned Flanders er nágranni okkar sem talar svolítið svona howdylidoodily og reyndi að snúa vinum okkar til mormónatrúar. Við höfum aldrei hitt hann beint, bara séð á einum húsfundi fyrir 2 árum og heyrt sögur af honum. Ned, sem er sennilega með greindarvísitölu upp á 200 og er að læra plasma physics, tókst á hálftíma að troða sófanum inn, laga skemmdirnar með vasahnífnum sínum og detta í tröppunum okkar. Hann vílaði ekki fyrir sér að taka hurðir af (við náðum samt að stoppa hann) og henda sér á skítugt stofugólfið allt án þess að einu sinni kynna sig! Hann hafði aldrei hitt okkur áður! Ég gapti á manninn mest allan tímann meðan Geir hjálpaði honum og vinkona mín sem var í heimsókn barðist við hláturinn. Þetta var ótrúlega súrrealísk stund. Ég held ég eigi aldrei eftir að læra social reglurnar hérna til fullnustu. Við erum Ned Flanders alla vega mjög þakklát og ætlum að hætta að gera grín að honum í bili þó það sé mjög erfitt.

The All American Sofa

The All American Sofa

Um daginn tók ég síðan frídag frá próflestri og útskrifaðist með masterinn. Vúhú! Þetta var frekar fyndin samkunda þar sem allir prófessorarnir voru í Harry Potter búningum og nemendurnir í mörgæsabúningum. Samt skemmtilegt og hápunkturinn var tvímælalaust þegar að ræðumaður nemenda þakkaði eiginkonu sinni fyrir alla hjálpina og kallaði hana síðan röngu nafni. Mjög vandræðalegt fyrir greyið strákinn en salurinn sprakk úr hlátri. Setti inn myndir af herlegheitunum fyrir þá sem vilja skoða.

Bleik og sæl með Jaydev og Savithu

Bleik og sæl með Jaydev og Savithu

Fyrir utan þetta er lítið af okkur að frétta. Ég fer oftast á rannsóknarstofuna á daginn og Geir er heima að lesa. Seinustu daga hef ég reyndar komist að því að blóðið í mér er orðið ómótstæðilega bragðgott og húðin sérlega mjúk og góð fyrir litla moskítómunna. Því miður virðist ég líka vera með frekar svæsið ofnæmi fyrir moskítóbitum en það bara kom ekki í ljós fyrr því ég hef eiginlega aldrei verið bitin. Ekki gaman og ofnæmislyfin gera mig bara syfjaða 😦 Svo núna um helgina er 4. júlí og það er helst á dagskránni hjá okkur að sitja í ameríska sófanum og fara svo kannski út til að sjá reenactment af orrustu sem var hér í nágrenninu árið sautjánhundruð og súrkál. Svona reenactments eru sennilega það hallærislegasta sem til er og hlakka ég mikið til að sjá gamla karla í byssó. Ætli ég þurfi að velja hvort ég held með Bandaríkjunum eða Bretlandi?

Tilkynningaskyldan

23 Maí

Jæja, nú er líf mitt komið aðeins meira á hreint og þá get ég bloggað. Seinustu mánuði er búið að vera ansi mikið að gera og einhvern veginn hef ég ekki haft tíma til að gera eitt né neitt. Ég er byrjuð að „vinna“ alla daga sem ég er ekki í tímum á rannsóknastofunni og get þess vegna ekki ferðast jafnmikið og ég hefði viljað. Ætla nú samt að reyna að koma aðeins heim í haust, lendi 23. ágúst og verð til 3. september líklega. Vonandi verða sem flestir á landinu þá.

Annars er það helst í fréttum að ég útskrifast með masterinn 14. júní og fer þá beint í doktorsnámið sem mun líklega taka mig svona 3-4 ár. Verkefnið er mjög spennandi og skemmtilegt og ég hlakka mjög til að hætta í kúrsum svo ég geti unnið við það fulltime. Fór í gær og náði í útskriftarbúninginn og ég held svei mér þá að ég hafi ekki séð asnalegri flík. Á hvaða sýru var hönnuðurinn?

Ætti kannski að byrja nota gleraugun meira

8 Apr

Af einhverjum ástæðum er voðalítið símasamband í íbúðinni okkar og þess vegna verð ég alltaf að fara út á verönd ef ég ætla að heyra í viðmælendum mínum. Áðan bráðlá mér á að hringja í Ragnheiði Helgu svo ég þaut út á verönd í slopp og náttfötum og talaði hátt og skýrt í símann á íslensku. Þar sem klukkan var að ganga níu þá var orðið alveg dimmt og mér sýndist ég sjá nágrannakonu mína sem ég þekki ansi vel labba framhjá. Ég öskraði því hæ og vinkaði hressilega. Kom síðan í ljós nokkrum mínútum síðar þegar ég var að fara út með ruslið og mætti „nágrannakonunni“ að þetta var alls ekkert hún heldur einhver stelpa sem ég hef aldrei séð áður. Shit hvað hún var hrædd á svipinn. Ég vona að þessi uppákoma hafi orðið til þess að ég hafi náð álíka frægðarstatus í hverfinu og allsberi gaurinn (sem ég hef aldrei séð), kúrekinn og kornræktandi mormóninn. Vonandi er ég kölluð ofurkammó sloppakerlingin. Ætla kaupa mér carmen rúllur í hárið til að fullkomna lúkkið.