Sarpur | 21:32

111308255155270445

9 Apr

Raunir Valgerðar ungu
Mikið verð ég glöð ef ég slepp út úr þessum vorprófum lifandi. Hvernig fer ég að þessu? Alltaf sama sagan. Af hverju finnst mér eins og ég hafi toppað andlega á svona 5-8 ára og leiðin síðan þá legið niður á við? Ef einhver hefði sagt mér þegar ég var 5 ára að þegar ég yrði loksins „stór“ þá myndi ég ákveða að fara bara í verkfræði svona til að prófa eitthvað þá hefði ég sagt viðkomandi að fara til læknisins. Nei takk, ég ætlaði sko að verða forseti, apafræðingur í frumskóginum, búðarkona eða læra um fólk í útlöndum (mannfræðingur?). Helst allt þetta. Ég var ung kona með hugsjónir. Síðan þá hafa metnaðurinn og hugsjónirnar farið út í veður og vind. „Jájá dreg bara miða“-aðferðin hefur verið minn helsti förunautur frá því í menntaskóla og nú virðist meira að segja hann vera orðinn of metnaðarfullur fyrir mig. Og ef einhver annar hefði sagt við mig að ég myndi nú bara vera ágætlega sátt við þetta hlutskipti mitt þá hefði ég skellt upp úr…hvílíkur rugludallur. Hvernig verður svona efnilegt 5 ára barn að metnaðarlausu ungmenni sem nennir ekki að velja sér framhaldsnám eða nokkurn farveg í lífinu? Má ég ekki bara horfa á X-files og leggja mig svo? Ég er ekki alveg að meðtaka það að eftir rúma 2 mánuði verði ég kannski komin með háskólapróf…bíddu hvenær gerðist það? Var ég sofandi? Úffpúff…farin til Parísar að finna mig, það er alltaf gert í myndum, drekka rauðvín á kaffihúsi og lesa ljóð. Reyndar er þetta leiðin fyrir íðilfagrar dökkhærðar týpukonur sem kunna frönsku og hugsa ógeðslega mikið, kannski fer ég bara og gerist mjaltastúlka í svissnesku ölpunum, ef ég er dugleg að borða og fer í brjóstastækkun þá hef ég alveg lúkkið í það. Svissnesku alparnir…hljómar eins og staður þar sem ég myndi finna mig. Ég er líka búin að afskrifa 15 ára planið, búa í útlöndum, ein með köttunum mínum, vera ótrúlega klár í doktorsnámi (óskilgreint fag), held það sé ekki málið frekar en apaforsetabúðarkonan. Þarf að redda mér einhverju 25 ára plani sem ég held mig svo bara við. Drög að 25 ára plani óskast í kommentakerfinu, þarf að vera fullt hugsjóna, skemmtilegt og metnaðarfullt. Ætla bara að hanga í einhverju millibilslimbói næstu 2 árin. Byrja svo á 25 ára planinu af fullum krafti. Reyndar held ég að þessi útskriftarkvíði læðist að ansi mörgum þessa dagana. Ekki gaman að vera komin svona óþægilega nálægt því að vera orðin „stór“ og byrjuð að sætta sig við það að vera orðin „stór“. Og þeir sem segja „hvaða væl er þetta Valla?“ verða skotnir á færi…þessar hugsanir læðast að ykkur líka! Annars eruði bara að ljúga.