Sarpur | 23:58

111879441522228635

14 Jún

Ferðasagan
Bara fyrir þig Edda 🙂 Hún er því sem næst í skeytastíl.

San Fransisco: 1 vika. Þetta var námsferðarhlutinn. Við fórum í Google, Cisco, Intel safn, Nasa safn, Stanford og Berkeley. Google skemmtilegast að mínu mati. Í frítíma skoðaði ég Alcatraz og fór í búðir. Fór á kínverskan veitingastað þar sem allur matur var með haus (sem betur fer eiginlega). Frændfólk Hildar í mínum bekk skipulagði ferð í Napa Valley í vínsmökkun og bauð okkur í siglingu á snekkju, hef ég nú kynnst hinu ljúfa lífi. Ég keypti Sideways í Barnes and Noble’s. Gerði örugglega eitthvað meira sem ég er að gleyma. Mæli með San Fransisco, hún er mjög skemmtileg.

Los Angeles: 1 vika. Jay Leno, Russell Crowe, Nelly og David Hasselhoff. Ok DH er ekki staðfestur en stælt, sólbrúnt goð í rauðum stuttbuxum með liðað hár…hlýtur að vera hann. Ég myndi sko rústa hvaða frægumannakeppni sem er. Búin að sjá Kim í BlowOut, Jai í Queer Eye, Russell og Leno. Ef David er staðfestur þá verð ég ósigrandi. Mig langar ekki aftur til LA. Fór í Universal Studios, skoðaði skiltið og gangstéttina, Beverly hæðir, fór í mall og eitthvað fleira. Einhvern veginn virðist ég ekki hafa gert neitt í LA. Pottþétt að gleyma einhverju hér.

Las Vegas: 1 dagur. Eyddi $1 í slot machine, fimmfaldaði upphæðina og tapaði öllu. Fjárhættuspil eru ekki fyrir mig, frekar en Matador. Toppurinn á LV var samt Sólarsirkussýningin (get ekki skrifað þetta rétt á frummálinu) hún var ótrúleg, hef aldrei séð jafnflotta sýningu. Átti afmæli, drakk minn fyrsta kokteil og fór heim 🙂 Vel heppnað, Las Vegas er súrrealísk.

Hawaii: 1 vika. Gerði ekki neitt á Hawaii. Fór í sund, sunddólgaðist, horfði á sjónvarp, svaf, týndist uppá fjalli og var bjargað af gömlum hippa.

Vil taka það fram að þetta er ekki framlag í leiðinlegu sögukeppnina.