Sarpur | 18:34

112508247894060000

26 Ágú

Philadelphia Story
Við erum komin heilu og höldnu til Philly og búin að koma okkur ágætlega fyrir í íbúðinni. Reyndar vantar eitthvað af dóti en við þraukum alveg daginn án klósettbursta og þess konar óþarfa:D Ferðin gekk eiginlega alveg ótrúlega vel, við fengum allan farangurinn okkar, komumst auðveldlega í gegnum toll og vegabréfsskoðun og lestin og leigubíllinn gengu eins og í sögu.
Við erum alveg á miðjum campus svo líklega munu áætlaðar heilsubótargöngur mínar ekki vera jafnlangar og ég ætlaði mér. Það er eiginlega hálfskrítið að vera hérna á svæðinu. Ég hef aldrei verið á stað sem er svona vel sniðinn að líferni aldurshópsins 18-30 ára. Fullt af kaffihúsum, skemmtilegum búðum (t.d. Urban Outfitters, bless bless peningar), bókabúðir (bless bless restin af peningunum) og svona passlega stórum matvörubúðum sem eru opnar allan sólarhringinn. Ekki leiðinlegt. Ég er samt búin að ákveða að halda fast að mér peningaveskinu og falla ekki í freistni.
Íbúðin er bara mjög fín, rúmgóð og snyrtileg þó að hún sé nú ekkert töff en ég bjóst nú ekki við því. Við erum með ísskáp, 3 gashellur, örbylgjuofn,sjónvarp með svona 7 stöðvum og loftræstingu (mjög gott) svo okkur skortir hreint ekkert. Íbúðin er á 19. hæð (mamma hættir vonandi ekki við að heimsækja mig útaf því) og býður upp á útsýni yfir allan campusinn og meira til 😀 Það er rosalega flott að geta horft yfir svona stóran hluta af borginni á kvöldin.
Í dag erum við svo búin að rölta milli skrifstofa og skynsamlegra búða og reyna redda öllum formsatriðum,tilkynna komu okkar o.s.frv.. Hittum fyrir mikið af sérstöku fólki. T.d. gamlan mann sem ákvað að taka Magga Scheving á þetta og hendist niður á gangstétt og tók 10 armbeygjur. Það var reyndar búið að segja mér að í Philadelphiu væru allar tegundir af fólki og fordómar fyrir sérvitringum af skornum skammti. Mér líst vel á þetta. Hendi svo inn myndum af íbúð og nánasta umhverfi á morgun.