Sarpur | 2:19

112545606186859284

31 Ágú

Geir er alltaf búinn að blogga um það sem ég ætla að skrifa
Þannig fyrir nokkra er þetta mikið til endurtekning.

Við leigðum bíl á mánudaginn og keyrðum til Princeton að ná í dót sem Geir hafði sett þar í geymslu. Ferðin gekk mjög vel og við vorum ansi stolt af okkur að geta keyrt og ratað án áfalla í fyrstu bílferð okkar í BNA. Ekki dugði minna en minivan undir alla bókakassana og ég held ég hafi sjaldan séð jafnsveitta og rauða menn og þá Geir og húsvörðinn sem hjálpaði okkur enda voru kassarnir ansi þungir. Nú er samt orðið miklu heimilislegra í íbúðinni eftir að hillurnar voru fylltar af fræðiritum. Við keyptum líka nokkur plaköt: Mynd eftir Monet (ekki vatnaliljurnar, þar setti ég stopp), órangútanunga, úlf, kött að lesa nótur og Ópið eftir Munch featuring Homer Simpson…allt mjög samstætt en gerir óneitanlega heimilislegt.

Í gær (miðvikudag) byrjaði ég svo í skólanum. Geir byrjar ekki fyrr en næsta þriðjudag, lucky bastard, útaf Labor Day. Eins gott að vera ekki í hvítum skóm eftir það sbr. Serial Mom. Dagurinn byrjaði á því að nýnemar voru settir í próf til að meta getu þeirra í ensku. Prófið samanstóð annars vegar af ritgerð um einhvern góðan sið frá heimalandi viðkomandi (ég skrifaði bara um Grýlu og jólasveinana) og hins vegar af hlustunar- og málfræðiæfingum sem flestir Íslendingar hefðu rúllað upp en það voru þónokkrir sem voru másandi og blásandi yfir því hve erfitt þetta próf væri. Svo vorum við sett í bekk út frá getu. Bekkurinn minn samanstendur af fólki frá Kóreu, Japan, Tælandi, Svíþjóð, Þýskalandi og svo einhverjum fleirum (það mættu ekki allir) og mér líst bara vel á þetta allt saman. Kúrsarnir sem ég valdi snúast aðallega um tjáningu s.s. ræðuhald, kynningar og svo framvegis sem er frekar fyndið fyrir semifélagsfælt fólk en örugglega hollt og mannbætandi.

Ég gerði samning við þýska stelpu um að við værum svona conversational buddies og ég myndi tala ensku við hana og hún kenndi mér og hjálpaði mér að æfa þýskuna mína. Tók mér Ölmu þar til fyrirmyndar. Vona bara að hún sé ekki eitthvað frík.

Annars erum við bara búin að vera dugleg að drasla ekki til og elda sjálf svo þið þurfið ekki að vorkenna Geir greyinu fyrir að búa með svona draslara 🙂 Við erum meira að segja búin að baka pönnsur á pönnukökupönnunni sem Lalli og Kata gáfu mér í útskriftargjöf.

Í gærkvöldi fórum við reyndar út að borða á Boston Market, skyndibitastað með heimilismat (hálfgerð þversögn), þar sem Geir bað um mashed potaters (lesist með þýðri rödd Önnu Nicole Smith) og hljómaði eins og besti Suðurríkjamaður. Þarna var eitthvað það fúlasta starfsfólk sem ég hef hitt fyrir. En maturinn var góður. Gaurinn sem var á undan okkur í röðinni var ekki hress með þjónustuna og spurði djúpri bassaröddu hvort þetta væri það sem hann hefði borgað fyrir, hann væri STÓR maður (og vissulega var hann stór ég varð hálfskelkuð en skildi hann vel).

Dagurinn í dag fór svo í að skoða Fornminjasafn háskólans. Þetta er reyndar svona fornminja- og mannfræðisafn. Frekar flott safn. Eftir menningarlegheitin ákvað ég síðan að fara í pílagrímsferð til að hitta mína elskuðu vinkonu H&M. Þrátt fyrir nær klukkutímagöngutúr voru þetta miklir fagnaðarfundir og þessi elska gaf mér meira að segja 20% námsmannaafslátt!

Vá hvað þetta er mikil upptalning. Setti inn tvö ný myndasöfn, annað úr roadtrippinu og hitt er svona samansafn. Það er svolítið mikið af eins myndum í þessu þar sem við vorum að prófa nýju myndavélina en já…ég braut ritskoðunarstefnuna svo fólk þyrfti ekki að þjást. Enn er ekkert fólk nema við Geir á myndunum en það stendur til að bæta úr því 🙂