Sarpur | september, 2005

112770476668396514

26 Sep

Keðjubréf
Þessi klukkleikur sem tröllríður bloggheimum minnti mig allt í einu á gömlu keðjubréfin. Sendu einn tyggjópakka til þess sem sendi þér þetta bréf og þú færð 500 til baka! Ég tók nú þátt í þeim ófáum en aldrei skiluðu allir pakkarnir sér til baka þó ég hafi nú stundum fengið allt upp í 3. Ætli krakkar sendi ennþá keðjubréf? Eða bara keðjuemail?

112768064419240945

25 Sep

Fjölmenning í Philadelphiu
Í gær fór ég ansi áhugaverða túristaferð um Philadelphiu með nokkrum úr prógramminu. Þemað var Underground Railroad, en fyrir þá sem ekki vita þá er það heitið á „samtökum“ sem hjálpuðu þrælum að flýja þegar þrælahald var ennþá löglegt hér í USA. Fyrst var farið með okkur í Mother Bethel AME Church en það er fyrsta African American kirkjan í USA, mjög falleg og hlýleg kirkja. Þar tók á móti okkur sérann á staðnum og fræddi okkur um sögu kirkjunnar og baráttuna fyrir mannréttindum. Að því loknu var keyrt með okkur til The Johnson House en það var einmitt stopp á the Underground Railroad þar sem strokuþrælar gátu falið sig á flóttanum. Þar var sett upp leikrit og við túristarnir beðnir um að setja okkur í spor þeirra sem hjálpuðu til, en það gat varðar háum sektum, fangelsisvist eða dauða. Mjööög áhugavert og sérstaklega fannst mér hryllilegt að sjá að flóttamennirnir þurftu að liggja milli þaks og veggjar til að felast fyrir hausaveiðurum. Minnti mig á það sem ég hef lesið um aðstæður Gyðinga í seinni heimsstyrjöld. Allt virkilega merkilegt og gaman að fræðast um en minnti mig óheyrilega á það hvað ég veit eiginlega ekki neitt um neitt.
Þegar túrinn var búinn ákvað ég að fara í hádegismat með nokkrum krökkum úr prógramminu. Stefnan var tekinn á Chinatown í Philly og fórum við á veitingastað sem er mjög þekktur fyrir Dim Sum rétti sína. Utan frá séð hefði mér aldrei dottið í hug að þarna fengist gott í gogginn en þegar inn var komið var staðurinn troðfullur af fólki frá hinum ýmsu Asíulöndum. Ég var eina hvíta manneskjan þarna inni og því frekar meðvituð um vankunnáttu mína með prjónana. Krakkarnir kenndu mér bara og núna kann ég loksins að borða með prjónum vúhú! Það var ótrúlega sniðugt fyrirkomulag á þessum stað. Strax og við settumst kom þjónn með te og litlar bollaskálar einhverjar og svo gátum við valið af kerru sem hann var með hvað við vildum fá. Semsagt engin bið eða neitt. Réttirnir voru svo settir á mitt borðið og allir skiptu á milli. Þegar einn skammtur var búinn var bara hóað í meira. Ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað ég borðaði en ég held að flest hafi verið eitthvað úr sjónum. Hins vegar setti ég stopp við hanalappirnar en nokkrir átu þær með bestu lyst en urðu svo grænir í framan þegar ég nefndi sviðakjamma og hrútspunga 🙂 Þegar ég var að ganga út vatt sér upp að mér ljóshærður strákur og kynnti sig sem Dan, hinn hvíta manninn á staðnum. Skrítið fólk hérna í Ameríkunni 🙂 Jæja held ég segi ekki meira í þessu stuttaralega bloggi en ég setti inn myndir frá túrnum 🙂

112743215062556037

22 Sep

Klukk, klukk
Í nokkra daga er ég búin að vera mjög leið yfir því hvað ég er mikil lumma. Ástæðan, jú, enginn hefur klukkað mig 😦 En nú er öldin önnur þökk sé Sigríði. Tek ég því þátt í klukkleiknum og klukka Geir, Ásdísi og Rástu:

  1. Ég er með 5 cm langt ör á miðju bakinu sem kom þegar ég var 10 ára og enginn veit afhverju.
  2. Sennilega er ég með snert af einhverfu því að kjötið má ekki koma við sósuna, sósan má ekki koma við kartöflurnar og grænmetið má ALLS ekki koma nálægt sósunni. Helst á allt að vera alveg aðskilið á disknum.
  3. Ég er mjög hrædd við hvali og ef ég sé hval í sjónvarpinu þá krullast upp á mér tærnar.
  4. Við Geir erum með alveg eins lappir (fyrir utan tær) það er mjög krípí.
  5. Mér fannst Steve Guttenberg sætur þegar ég var yngri.

112726749816581624

21 Sep

Gallabuxnamenning í Kanaveldi
Það er fátt í heimi hér sem ég hata jafnmikið og gallabuxnakaup. Afhverju? Jú, í fyrsta lagi þá innifela gallabuxnakaup ákvarðanatökur og val, í öðru lagi þá innifela þau rass og læri og í þriðja lagi þá eru þau alltof flókin. Í dag tók ég hins vegar ákvörðun. Nú skyldi ég kaupa mér í það minnsta eitt sett enda hef ég ekki átt góðar galló síðan í fimmta bekk í MR. Eftir skóla tók ég því stefnuna á útsölu eina í baráttuhug! Mér hafði þó í það minnsta tekist að velja búð.
Kaninn er eins og flestir vita til í ansi mörgum stærðum og gerðum og allir verða að fá eitthvað fyrir sig. Sennilega eru gallabuxur notaðar til skilgreiningar sjálfsmyndar og því er ferlið flókið. Andstæðingurinn var harðari í horn að taka en virtist í fyrstu. Spurningar sem gallabuxnakaupandi hér í landi þarf að hafa velt fyrir sér áður en lagt er í hann:

1. Hvert er kyn þitt? Karl? Kona?
2. Hvernig ertu í laginu? Löng og mjó? Bein og mjaðmalaus? Aðeins rúnnaðri en samt mittislaus? Rassstór, mittismjó og rúnnuð?
3. Ertu með voða stuttar lappir? Frekar stuttar lappir? Venjulegar lappir? Langar lappir?
4. Hvaða stærð notaru á skalanum 0 upp í 18?
5. Hvaða snið viltu? Upp í mitti? Mjaðmabuxur? Útvíðar? Innvíðar? Beinar? Flare (veit ekki hvað það er einu sinni)?
6. Hvaða lit viltu? Ljósljósbláan, ljósbláan, bláan, dökkbláan?

Ég mátaði alls 12 gallabuxur. Tók það 1 klst og á tímabili var afgreiðslukonan sannfærð um að ég væri að stela eða veik á geði. Mæli ekki með þessu fyrir valkvíðasjúklinga.

112671557631036096

14 Sep

Lost without you
Komið hefur upp vandamál í heimilishaldinu. Svik, blekkingar og ómótstæðilegar freistingar skekja stoðirnar. Enn hefur hvorugt okkar brotnað svo vitað sé til en bæði höfum við beygst ískyggilega. Við tökum ekki til svo dögum skiptir, sofum óreglulega, lærum lítið.

Þetta byrjaði allt í seinustu viku þegar ég keypti fyrstu seríuna af Lost. Guðný frænka hafði gefið mér nasaþefinn af þáttunum og ég var fallin, vildi meira. Geir fannst þetta nú heldur ómerkilegur pappír en gaf þessu nú tækifæri mín vegna. En núna er allt farið til fjandans. Þetta er eins og eiturlyf. Ég þrái næsta skammt heitar en allt og Geir líka þó hann viðurkenni það aldrei. En við ætluðum að horfa á þetta SAMAN svo það þarf alltaf að bíða eftir að hinn aðilinn sé heima/búinn að læra/vakandi. Ég hata tillitsemi við aðra.

Setti líka inn myndir af fólki úr skólanum og frá Washington ferð.

112575911875602133

3 Sep

Cross Cultural Misunderstanding
Lenti í alveg tryllt fyndnu atviki í gær. Þar sem það er fólk frá u.þ.b. 15 löndum og á ýmsum stigum varðandi getu í prógramminu sem ég er í var allur hópurinn settur í svona Cross Cultural Workshop, sem er ótrúlega skemmtilegt og sniðugt fyrirbrigði. Þar var unnið með nöfn frá mismunandi löndum, steríótýpur í samfélaginu, first impressions og fleira í þeim dúr.

Í first impressions hlutanum átti að sitja við hliðina á einhverjum sem maður hafði helst aldrei hitt og vissi kannski ekkert um nema nafn og heimaland og skrifa niður nokkur atriði um hvað maður héldi um viðkomandi og halda svo kynningu. Sú sem átti að skrifa um mig vissi bara nafn, heimaland og að ég væri nýútskrifuð úr háskóla. Þess má geta að hún varð svo impóneruð þegar hún heyrði heimalandið að ég hélt að höfuðið ætlaði af! Ótrúlega indæl stelpa en ekkert voðalega góð í ensku.
Kynningin byrjaði svona: „Name is Valla and she is from ICEBERG!
Aldrei á ævinni hef ég átt svona erfitt með að hlæja ekki enda hefði það verið mesti moodkiller þar sem fyrri hluti tímans hafði farið í að ræða hvað það væri mikilvægt að vera þolinmóð(ur) við fólk frá öðrum menningarheimum. Hún hélt líka að ég dýrkaði pop music og ástarkvikmyndir, væri með gráðu í business, væri frá smábæ (já) og synti mjög mikið (ekki alveg). Greyið fór alveg í rusl eftir kynninguna og ég þurfti að eyða löngum tíma í að útskýra fyrir henni að þetta væri allt í lagi og ég hefði ekki orðið sár.

Stundum held ég að ég sé þriggja ára. Eftir þetta var svona „allir að kynnast og drekka soda“ partý sem var reyndar mjög skemmtilegt og gaf öllum færi á að kynnast betur. Til dæmis kynntist ég skemmtilegri stelpu frá Swiss sem ég hékk eiginlega með allan daginn. Veit ekki alveg hvort ég á að segja henni hvað eftirnafn hennar þýðir á íslensku, hún heitir nefnilega Mella. Hitti reyndar annan sem bar eftirnafnið Hommi en það fannst mér ekki nærri jafnfyndið.

Semsagt dagurinn í gær fór í svona social kynnast öllum blabla og í nótt dreymdi mig að ég þyrfti alltaf að segja hæ við alla sem ég mætti úti á götu og var ótrúlega þreytt þegar ég vaknaði.

Í gærkvöldi fórum við Geir niður í gamla bæinn í Philadelphiu á svokallaðan „First Friday“ en fyrsta föstudag í mánuði eru öll listagallerí í gamla bænum opin fram á kvöld og í tengslum við það er allt fullt af götulistamönnum og götumörkuðum. Hápunkturinn að mínu mati var svona philadelphísk útgáfa af kassabílaralli en fólk virtist hafa breytt stórum þríhjólum í einhverja furðuvagna, einn sat til dæmis á klósetti, og var í kappakstri á þessum hjólum.