Gallabuxnamenning í Kanaveldi
Það er fátt í heimi hér sem ég hata jafnmikið og gallabuxnakaup. Afhverju? Jú, í fyrsta lagi þá innifela gallabuxnakaup ákvarðanatökur og val, í öðru lagi þá innifela þau rass og læri og í þriðja lagi þá eru þau alltof flókin. Í dag tók ég hins vegar ákvörðun. Nú skyldi ég kaupa mér í það minnsta eitt sett enda hef ég ekki átt góðar galló síðan í fimmta bekk í MR. Eftir skóla tók ég því stefnuna á útsölu eina í baráttuhug! Mér hafði þó í það minnsta tekist að velja búð.
Kaninn er eins og flestir vita til í ansi mörgum stærðum og gerðum og allir verða að fá eitthvað fyrir sig. Sennilega eru gallabuxur notaðar til skilgreiningar sjálfsmyndar og því er ferlið flókið. Andstæðingurinn var harðari í horn að taka en virtist í fyrstu. Spurningar sem gallabuxnakaupandi hér í landi þarf að hafa velt fyrir sér áður en lagt er í hann:
1. Hvert er kyn þitt? Karl? Kona?
2. Hvernig ertu í laginu? Löng og mjó? Bein og mjaðmalaus? Aðeins rúnnaðri en samt mittislaus? Rassstór, mittismjó og rúnnuð?
3. Ertu með voða stuttar lappir? Frekar stuttar lappir? Venjulegar lappir? Langar lappir?
4. Hvaða stærð notaru á skalanum 0 upp í 18?
5. Hvaða snið viltu? Upp í mitti? Mjaðmabuxur? Útvíðar? Innvíðar? Beinar? Flare (veit ekki hvað það er einu sinni)?
6. Hvaða lit viltu? Ljósljósbláan, ljósbláan, bláan, dökkbláan?
Ég mátaði alls 12 gallabuxur. Tók það 1 klst og á tímabili var afgreiðslukonan sannfærð um að ég væri að stela eða veik á geði. Mæli ekki með þessu fyrir valkvíðasjúklinga.
Úfff! Þú átt ALLA mína samúð! Þetta er martröð mín… enda hef ég átt nákvæmlega þrennar gallabuxur um ævina og þar af tvennar sem mér voru gefnar þegar ég var lítil (þá var allt svo einfalt – pabbi og mamma bara keyptu einhver föt og maður gekk í þeim sama hvernig þau pössuðu punktur basta!). Þessar þriðju fundust í H&M á síðasta ári en þá voru notabene liðin 10 ár frá því ég hafði klæðst gallabuxum síðast. Eiginlega er þetta partur af „allraefstastigi“ hræðilegheita. Grunnstig er það að þurfa að leita sér að fötum almennt, miðstig að þurfa að leita sér að einni ákveðinni flík, efstastig er að sú flík sé buxur og allraefstastig að það séu gallabuxur!
Fúff, greyið þú! Held að ég myndi aldrei geta keypt mér gallabuxur í Bandríkjunum, þetta virðist flóknara en hér heima. Ég reyndi um daginn en gafst upp, hyggst gera aðra tilraun í H&M í Danaveldi.
Ég er held ég andstaða þín þegar kemur að galló. Ég geng bara í galló og þegar ég kaupi mér virðist ekki skipta máli hvernig þær passa, ég kaupi þær bara samt. Á þar af leiðandi nokkrar buxur sem ég nota aldrei, sem getur verið kvimleitt, þá sér í lagi þegar buddan er tekin inn í jöfnuna.
kv. jns
Gaman að horfa á þig stíga fyrstu skrefin í heimi fullorðinna.. þ.e án tískuráðgjafans 😉 ég á 12 gallabuxur hehe, galdurinn er að finna búðina með sínu sniði, í mínu tilfelli Topshop, reyndar er örugglega ágætt að finna ekki búðina sína.. sbr gallabuxnafjöld
p.s e-mail, oft á fundum á þessum tíma
-Ösp
Hahaha Ösp finnuru ekki fyrir stolti? Svona svipað eins og foreldri sem sér barnið sitt stíga fyrstu skrefið eða byrja í 6 ára bekk?
PS.Bjarnheiður þessi stigakenning þín er mjög góð 😀
ooooooog hvernig endaði svo þetta allt saman? 🙂
Keypti tvo por! 🙂
Þetta kallar maður að versla – tvennar galalbuxur í sama verslunarleiðangrinum! Valla þú ert á réttri braut;)
Kv.Brynja
Ánægð með þig!!!!!
Jú Valla finn fyrir miklu stolti, sem magnast þegar hinar hrósa þér því ég tek það beint til mín;)
heyri í þér beibí
kv
Ösp
Ég kannast við þessar raunir þínar. Á „svarta tímabilinu“ mínu, sem er ný afstaðið, gekk ég aðeins í svörtum gallabuxum, svörtum bolum, svörtum sokkum, svörtum nærbuxum (geri það enn), svörtum jakka, svartri peysu, brúnum skóm.
Þetta kerfi er alveg rosalega þægilegt. Bara kaupa fullt af nákvæmlega eins buxum, þegar maður er nú einusinni búinn að finna snið og stærð. Svarta boli í Large er auðvelt að finna. Svo kaupir maður bara tonn af svörtum sokkum og nærbuxum.
Þetta sparar ómældan tíma og fyrirhöfn á morgnanna þegar maður getur bara gripið næstu flík og skellt sér í hana. Allt passar saman. Gallinn var bara hve banal þessi lausn er.
Hin leiðin virkar sæmilega. Hún er mun dýrari en þó margfallt meira spennandi. Gakktu inn í fataveslun að eigin smekk, svona sem er með föt frá einum fataframleiðanda. Kauptu svo alklæðnað fyrir tugi þúsunda. Kosturinn við þetta er sá að flestar flíkur passa sæmilega saman, því fólk hefur fengið borgað fyrir að hanna fata-‘línu’ sem tónar saman. Þannig að það skiptir litlu máli hvernig maður raðar fötunum saman. Þannig hefur maður losnar maður við einhvern hluta þeirra óþæginda að þurfa sífellt að velja.
Hm.. þetta er kannski alveg jafn ömurleg lausn og „svarta-línan“. 😉
Arnþór: svarta kenningin átti einu sinni aldeilis upp á pallborðið hjá mér. Ein skemmtileg aukaverkun við svört tímabil, kuskið í þurrkaranum er alltaf grátt.