Sarpur | 20:12

112768064419240945

25 Sep

Fjölmenning í Philadelphiu
Í gær fór ég ansi áhugaverða túristaferð um Philadelphiu með nokkrum úr prógramminu. Þemað var Underground Railroad, en fyrir þá sem ekki vita þá er það heitið á „samtökum“ sem hjálpuðu þrælum að flýja þegar þrælahald var ennþá löglegt hér í USA. Fyrst var farið með okkur í Mother Bethel AME Church en það er fyrsta African American kirkjan í USA, mjög falleg og hlýleg kirkja. Þar tók á móti okkur sérann á staðnum og fræddi okkur um sögu kirkjunnar og baráttuna fyrir mannréttindum. Að því loknu var keyrt með okkur til The Johnson House en það var einmitt stopp á the Underground Railroad þar sem strokuþrælar gátu falið sig á flóttanum. Þar var sett upp leikrit og við túristarnir beðnir um að setja okkur í spor þeirra sem hjálpuðu til, en það gat varðar háum sektum, fangelsisvist eða dauða. Mjööög áhugavert og sérstaklega fannst mér hryllilegt að sjá að flóttamennirnir þurftu að liggja milli þaks og veggjar til að felast fyrir hausaveiðurum. Minnti mig á það sem ég hef lesið um aðstæður Gyðinga í seinni heimsstyrjöld. Allt virkilega merkilegt og gaman að fræðast um en minnti mig óheyrilega á það hvað ég veit eiginlega ekki neitt um neitt.
Þegar túrinn var búinn ákvað ég að fara í hádegismat með nokkrum krökkum úr prógramminu. Stefnan var tekinn á Chinatown í Philly og fórum við á veitingastað sem er mjög þekktur fyrir Dim Sum rétti sína. Utan frá séð hefði mér aldrei dottið í hug að þarna fengist gott í gogginn en þegar inn var komið var staðurinn troðfullur af fólki frá hinum ýmsu Asíulöndum. Ég var eina hvíta manneskjan þarna inni og því frekar meðvituð um vankunnáttu mína með prjónana. Krakkarnir kenndu mér bara og núna kann ég loksins að borða með prjónum vúhú! Það var ótrúlega sniðugt fyrirkomulag á þessum stað. Strax og við settumst kom þjónn með te og litlar bollaskálar einhverjar og svo gátum við valið af kerru sem hann var með hvað við vildum fá. Semsagt engin bið eða neitt. Réttirnir voru svo settir á mitt borðið og allir skiptu á milli. Þegar einn skammtur var búinn var bara hóað í meira. Ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað ég borðaði en ég held að flest hafi verið eitthvað úr sjónum. Hins vegar setti ég stopp við hanalappirnar en nokkrir átu þær með bestu lyst en urðu svo grænir í framan þegar ég nefndi sviðakjamma og hrútspunga 🙂 Þegar ég var að ganga út vatt sér upp að mér ljóshærður strákur og kynnti sig sem Dan, hinn hvíta manninn á staðnum. Skrítið fólk hérna í Ameríkunni 🙂 Jæja held ég segi ekki meira í þessu stuttaralega bloggi en ég setti inn myndir frá túrnum 🙂