Sarpur | júlí, 2006

Match made in heaven

30 Júl

Þetta er tvímælalaust það fyndnasta sem hefur komið út úr myheritage.com prófunum mínum.

Setti þessa mynd inn:

Fékk út uppáhalds leikkonuna mína og já…:

Trúnó

26 Júl

Þessi hugleiðing er tileinkuð henni Eddu minni. Edda skilur nefnilega undarlegheitin í mér því hún er eins. Við syrgjum báðar. Hún syrgir Seinfeld, ég syrgi smásagnasafnið mitt. Af hverju þurfa góðir hlutir að taka enda?

 

Írlandsför 2006

26 Júl

Ég á ógeðslega erfitt með að skrifa ferðasögur. Það er hrein pína og þær enda alltaf í stílnum sem mátti ekki einu sinni skrifa eftir í 7. bekk í grunnskóla. Ég byrja og reyni að skrifa en það endar alltaf í þessu: Svo fór ég þarna út af þessu, svo þegar það var búið gerðum við þetta út af þessu <innsett mynd af þessu>. Það var nú aldeilis gaman. Það er alveg sama hversu áhugaverða hluti ég geri þegar kemur að ferðasögunni þá gleymast þeir og leiðinlegu hlutirnir flæða út og heimta sinn stað í frásögninni. Sama má segja um kortaskrif, þau eru mér álíka erfið. Ég gæti kannski sent símskeyti frekar svo spör er ég á orð í kortum. Vanalega endar þetta á því að ég skrifa lýsingu á einhverju eða bara einhverja steik út í loftið. Samt langar mig alltaf að skrifa ferðasögurnar því að seinna er gaman að lesa þær til að rifja upp og sjálfri finnst mér sjúklega gaman að lesa ferðasögur annarra. Í þetta sinn ætla ég að reyna að segja frá ferðinni okkar Ölmu til Írlands. Ferðin byrjaði á óguðlegum tíma á þriðjudagsmorguninn og endaði núna aðfaranótt mánudags. Í London gerði ég ekkert nema versla og fara á Dali sýningu. Ég varð dálítið heilluð af honum enda stórundarlegur maðurinn.

Heppnin lék við okkur allan tímann, við náðum öllum lestum, rútum og flugvélum og fengum meira að segja gott hótelherbergi í London fyrir engan pening (ég er enn að ná því). Bæði í London og Dublin urðum við fyrir óeðlilega mikilli áreitni öskukarla og get ég því næstum fullyrt að ég eigi öskukarl í hverri borg. Ég skil eiginlega ekki hvernig ég fór að því að ná í heimspeking og snyrtipinna þar sem ég virðist hafa mjög stefnumiðaðan kynþokka sem beinist eingöngu að ruslakörlum og engum öðrum. Best að halda í hann 😉

 

Þegar við stigum út úr flugvélinni var það fyrsta sem við sáum eldrauðhærður flugvallarstarfsmaður. Það var hápunktur ferðarinnar. Djók, en án gríns þá er þetta með rauðhært fólk á Írlandi bara mýta. Eftir það var allt niður á við. Ég var búin að kvíða dálítið fyrir Dublin þar sem allir hvítnuðu í framan og jesúsuðu sig þegar þeir heyrðu að við myndum gista hjá Rósu. Hún var samt voðablíð við okkur og held ég að kærastinn hennar hafi haft góð áhrif á hana. Seinasta daginn var samt aðeins farið að glitta í hið rétta eðli en ekkert til að kvarta yfir í rauninni. Þau skötuhjú drifu okkur beint af flugvellinum á írskan pöbb og sýndu okkur svo dorgandi heimamenn. Daginn eftir fóru með okkur út í sveit og sýndu okkur munkaklaustursrústir og írska náttúru, kvöldinu var svo slúttað á írskri danssýningu og…írskum pöbb. Mér fannst Guinnessinn góður en Alma fékk sér bara Heineken…frekar léleg Alma verð ég að segja. Þessir pöbbar voru annars voða Celtic og Dublinerslegir.

Næsta dag röltum við um borgina og skoðuðum en þar sem við erum báðar miklir letitúristar þá enduðum við daginn á spilamennsku í almenningsgarði. Ekki töff en mjög gaman. Spilið verður spilað grimmt um verslunarmannahelgina á Tálknafirði.

Við hittum engil

Já, síðan fórum við auðvitað í búðir að kvenfélagssið og skil ég vel afhverju Dublin hefur verið sótt heim af saumaklúbbum gegnum aldirnar. Þetta var ekta þannig stemmning. Rósa dreif okkur á djammið eitt kvöldið og það var eiginlega svo leiðinlegt að ég nenni ekki að skrifa um það. Stelpan átti dálítið erfitt með að halda sig á einum stað þar sem á fyrsta staðnum var of troðið, á öðrum staðnum var of lítið af fólki, á þriðja staðnum var leiðinlegt og þar fram eftir götunum. Kvöldinu björguðu götulistamenn sem spiluðu þjóðlagatónlist í anda Stórsveita Nix Noltes og þeir voru bara ansi góðir. Alma ætlar að giftast gítarleikaranum, þið vitið af því bara.

 

En já, þetta var ferðin í mjög grófum dráttum. Smáatriði og fyndnar sögur verða reifaðar í Ölmubloggi þegar hún kemur heim.

Myndir eru hér.

Nýtt blogg

24 Júl

Ok, nú er þetta officially nýja bloggið MITT. Vinsamlegast breytið tenglum ef þið eruð með þannig. Eftir mikið basl við ósamrýmanlega kóðun á bloggum okkar tókum við Geir sameiginlega ákvörðun um að við værum sennilega betri sem bloggeinstaklingar en ekki ein bloggheild. Takk fyrir.

Topp 10 ellimerki

13 Júl
  1. Hárið á þér er farið að detta af og þynnast ískyggilega.
  2. Þú hittir „stelpuna“ sem passaði þig þegar þegar þú varst lítil á IKEA útsölu. Hún hrekkur í kút yfir ellimerkjum þínum og segist aldrei venjast því að sjá þig svona fullorðna. Þú fattar að barnapían er bara einu ári eldri en kærastinn þinn.
  3. Þú sannfærist endanlega um það að rás 2 sé besta stöðin og Gufan er farin að vinna ískyggilega á.
  4. Foreldrar þínir eru farnir að reka á eftir því að þú flytjir út svo að þú flytur inn í raðhús.
  5. Þér finnst fátt skemmtilegra en vinnuumræður um bilaða prentara, veðrið og vöðvabólgur.
  6. Föstudagar eru off sem djamm dagar því þá ertu svo agalega þreytt eftir vikuna.
  7. Mamma þín fær lánuð föt hjá þér og þú hjá henni.
  8. Félagsviðburðir vikunnar samanstanda af ferðum í sumarbústaði, golfi og heimsóknum til ömmusystra þinna. Þú hittir vinkonur þínar bara í hádegismat.
  9. Mömmu þinni finnst þú vera á seinasta sjens á að fara í „stelpuferðir“.
  10. Allir eru farnir að yngja upp.

Lokavísbendingin er svo að þú ert alveg sátt/ur við atriði 1. til 10. og allir aldurskomplexar eru horfnir sem dögg fyrir sólu því þeir „eru svo barnalegir“.