Írlandsför 2006

26 Júl

Ég á ógeðslega erfitt með að skrifa ferðasögur. Það er hrein pína og þær enda alltaf í stílnum sem mátti ekki einu sinni skrifa eftir í 7. bekk í grunnskóla. Ég byrja og reyni að skrifa en það endar alltaf í þessu: Svo fór ég þarna út af þessu, svo þegar það var búið gerðum við þetta út af þessu <innsett mynd af þessu>. Það var nú aldeilis gaman. Það er alveg sama hversu áhugaverða hluti ég geri þegar kemur að ferðasögunni þá gleymast þeir og leiðinlegu hlutirnir flæða út og heimta sinn stað í frásögninni. Sama má segja um kortaskrif, þau eru mér álíka erfið. Ég gæti kannski sent símskeyti frekar svo spör er ég á orð í kortum. Vanalega endar þetta á því að ég skrifa lýsingu á einhverju eða bara einhverja steik út í loftið. Samt langar mig alltaf að skrifa ferðasögurnar því að seinna er gaman að lesa þær til að rifja upp og sjálfri finnst mér sjúklega gaman að lesa ferðasögur annarra. Í þetta sinn ætla ég að reyna að segja frá ferðinni okkar Ölmu til Írlands. Ferðin byrjaði á óguðlegum tíma á þriðjudagsmorguninn og endaði núna aðfaranótt mánudags. Í London gerði ég ekkert nema versla og fara á Dali sýningu. Ég varð dálítið heilluð af honum enda stórundarlegur maðurinn.

Heppnin lék við okkur allan tímann, við náðum öllum lestum, rútum og flugvélum og fengum meira að segja gott hótelherbergi í London fyrir engan pening (ég er enn að ná því). Bæði í London og Dublin urðum við fyrir óeðlilega mikilli áreitni öskukarla og get ég því næstum fullyrt að ég eigi öskukarl í hverri borg. Ég skil eiginlega ekki hvernig ég fór að því að ná í heimspeking og snyrtipinna þar sem ég virðist hafa mjög stefnumiðaðan kynþokka sem beinist eingöngu að ruslakörlum og engum öðrum. Best að halda í hann 😉

 

Þegar við stigum út úr flugvélinni var það fyrsta sem við sáum eldrauðhærður flugvallarstarfsmaður. Það var hápunktur ferðarinnar. Djók, en án gríns þá er þetta með rauðhært fólk á Írlandi bara mýta. Eftir það var allt niður á við. Ég var búin að kvíða dálítið fyrir Dublin þar sem allir hvítnuðu í framan og jesúsuðu sig þegar þeir heyrðu að við myndum gista hjá Rósu. Hún var samt voðablíð við okkur og held ég að kærastinn hennar hafi haft góð áhrif á hana. Seinasta daginn var samt aðeins farið að glitta í hið rétta eðli en ekkert til að kvarta yfir í rauninni. Þau skötuhjú drifu okkur beint af flugvellinum á írskan pöbb og sýndu okkur svo dorgandi heimamenn. Daginn eftir fóru með okkur út í sveit og sýndu okkur munkaklaustursrústir og írska náttúru, kvöldinu var svo slúttað á írskri danssýningu og…írskum pöbb. Mér fannst Guinnessinn góður en Alma fékk sér bara Heineken…frekar léleg Alma verð ég að segja. Þessir pöbbar voru annars voða Celtic og Dublinerslegir.

Næsta dag röltum við um borgina og skoðuðum en þar sem við erum báðar miklir letitúristar þá enduðum við daginn á spilamennsku í almenningsgarði. Ekki töff en mjög gaman. Spilið verður spilað grimmt um verslunarmannahelgina á Tálknafirði.

Við hittum engil

Já, síðan fórum við auðvitað í búðir að kvenfélagssið og skil ég vel afhverju Dublin hefur verið sótt heim af saumaklúbbum gegnum aldirnar. Þetta var ekta þannig stemmning. Rósa dreif okkur á djammið eitt kvöldið og það var eiginlega svo leiðinlegt að ég nenni ekki að skrifa um það. Stelpan átti dálítið erfitt með að halda sig á einum stað þar sem á fyrsta staðnum var of troðið, á öðrum staðnum var of lítið af fólki, á þriðja staðnum var leiðinlegt og þar fram eftir götunum. Kvöldinu björguðu götulistamenn sem spiluðu þjóðlagatónlist í anda Stórsveita Nix Noltes og þeir voru bara ansi góðir. Alma ætlar að giftast gítarleikaranum, þið vitið af því bara.

 

En já, þetta var ferðin í mjög grófum dráttum. Smáatriði og fyndnar sögur verða reifaðar í Ölmubloggi þegar hún kemur heim.

Myndir eru hér.

5 svör til “Írlandsför 2006”

 1. Geir Miðvikudagur, 26 júlí 2006 kl. 0:17 #

  Ég kem með næst.

 2. Edda Miðvikudagur, 26 júlí 2006 kl. 0:19 #

  Fínasta ferðasaga hjá þér, systir Valgerður.

 3. Bjarnheidur Miðvikudagur, 26 júlí 2006 kl. 0:28 #

  vá! takk fyrir ferðasöguna – hún er alls ekki eins og formálinn varaði við! 😀 mér finnst hún alveg mýmargra ísa virði (og þykir ís mjööög góður)
  p.s. voruði með íslandskynningu planaða þarna í ferðinni? (spurt út frá mynd af ykkur og tveim stúlkum með iceland-myndabæklinga…)

 4. Jónas Miðvikudagur, 26 júlí 2006 kl. 13:19 #

  Ég verð að taka undir með síðustu tveim ræðumönnum, ferðasagan var einkar skemmtileg, fyndin, létt og fræðandi. Formálinn óþarfur.

  Er ég opnaði myndahlekkinn og sá fyrstu myndina undir yfirskriftinni Írland var ég viss um að þér hafi orðið á í messunni þar sem myndin var af Íslandi. Bara einn stafur sem munar. En áður en ég leiðrétti þig þá ákvað ég að skoða næstu myndir og sá að þær voru allar af Bretlandseyjum. Rétt eins og ferðasagan voru þær skemmtilegar, fyndnar, léttar og fræðandi. Ég vissi til dæmis ekki að það væri svona fallegt í Írlandi. Ímyndaði mér landið mun grárra og flatara.

  ps. Ég tek líka alltaf með mér íslenska ferðabæklinga til útlanda til að dreyfa til fólksins svo að það komi í heimsókn til Íslands. Ódýr auglýsing sem virkar!

 5. Alma Sunnudagur, 6 ágúst 2006 kl. 20:57 #

  Geir, þú þarft að fá sérstakt leyfi hjá Nunnufélaginu ef þú vilt koma með í næstu Írlandsferð. Það er samt kannski auðfengið fyrir þig vegna valda þinna. Skemmtileg ferðasaga hjá þér Valgerður, ég ákvað að setja mína bara inn í myndaformi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: