Sarpur | september, 2006

Af skriffinnsku

27 Sep

Í dag fór ég í berklapróf. Til þess að mega fara í þetta próf þurfti ég fyrst að fara á eina skrifstofu til að ná í bleikt blað og svo aðra til að fylla út eyðublöð. Þar tók við 1 og 1/2 tíma bið. Eyðublöðin spurðu um alla mögulega og ómögulega hluti t.d. um veikindasögu mína og allrar stórfjölskyldunnar, alla sem hafa nokkurn tímann verið með háþrýsting, öll hjartaáföll, heilablóðföll og krabbamein. Þar að auki þurfti ég að krossa við hvort ég notaði eiturlyf, hjólaði með hjálm, hvernig getnaðarvörn ég nota, hvenær ég fór seinast til tannlæknis, hvenær ég fór seinast til kvensjúkdómalæknis, hvenær ég fékk seinast flensusprautu, hvort ég vildi fá hiv próf og svo voru nokkrar spurningar sem ég skildi ekki einu sinni. Vona að ég hafi ekki krossað við að ég væri með ólæknanlegan sjúkdóm og það mætti pull the plug strax og ég kem á sjúkrahús eða eitthvað álíka. Berklaprófið sjálft tók svo innan við mínútu.

Þetta var þó barnaleikur miðað við ökuskírteinið. Sú leiðindasaga verður ekki sögð hér. Ég vona að ekkert komi nokkurn tímann fyrir því að þó að „þetta reddist“ þá reddast það eingöngu með útfyllingu 5 bleikra eyðublaða, 3 gulra og 8 undirskrifta þar sem allir aðrir en ég eru fríaðir ábyrgð. Sem betur fer eru flestir þó hjálplegir og indælir. 

Síðan fór ég í tíma. Þetta var mjög skemmtilegur tími sem heitir Medical Sciences I en ætti í raun að heita Frumulíffræði. Kennarinn er svona „hressi gaurinn“ sem reyndar skellti á okkur prófi til að sjá hvar við stæðum í frumulíffræði. Hehe það gekk vægast sagt ekki vel og hefur mér ekki gengið jafnilla á prófi síðan á fyrsta jarðfræðiprófinu í mr. Nú af þessum sökum er ég byrjuð að naga neglur aftur. Reyndar held ég að  helmingurinn af salnum hafi ekki vitað rassgat enda eru flestir sem eru með mér í þessum kúrs úr véla-, rafmagns- og tölvuverkfræði. Fagið virkar samt áhugavert við fyrstu sýn og ég man eitthvað smá frá því í MR þó sú kunnátta sé öll á íslensku. Nú er bara að komast að því hvernig hvatberi og golgí kerfi eru á ensku og þá er þetta komið 🙂

Í gær fór ég í fyrsta tíma í hermunarkúrsi sem virðist við fyrstu sýn vera stærðfræðigreining III og IV með klípu af tölfræði. Á fimmtudaginn fer ég síðan í fyrsta tíma í seinasta kúrsinum sem fjallar um viðskiptaáætlanir og hvernig skal koma (líftækni)vörum á markað. Það verður vonandi ekki of skrautlegt.

Þessi leiðindafærsla er í boði þess að ég get ekki sofið 🙂

Uppgjör septembermánaðar

24 Sep

Síðan ég kom hingað út hef ég verið mjög löt við skrif og á það bæði við tölvupósta og færslur. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að vegna leti og seinagangs gat ég ekki nettengt tölvuna fyrr en í seinustu viku. Var ég því upp á náð Geirs komin hvað varðar nettengsl og kunni því illa, vægast sagt. En nú hyggst ég bæta úr því að einhverju leyti.

Dagarnir hafa að mestu farið í stúss og slæping. Fyrstu vikuna fór ég og heimsótti Ragnheiði Helgu í New York og þakka ég henni gott heimboð. Þaðan skelltum við okkur í Six Flags og prófuðum nokkra rússíbana. Ég verð að viðurkenna að Ragnheiður er mér ofjarl hvað varðar rússíbana og þó mér finnist ég nú ekki vera neinn kettlingur í þeim málum þá er ég það miðað við hana þar sem ég þorði ekki í svakalegustu tækin og það þurfti að neyða mig í þau næstverstu. Mæli samt með Six Flags, þetta var ógeðslega gaman.

Síðan er ég búin að fara með Geir á nokkra atburði hjá skólanum hans og ég fer ekki af því að skólasamkundur hér minna meira á opin hús í félagsmiðstöðvum heldur en partý hjá eðlilegu fólki (ekki það að ég hafi nokkurn tímann farið í þannig 😉 ) Við fórum líka óvart á „húsfund“ í hverfinu sem reyndist vera nefndin og við. Það er greinilega ekki lenska að mæta á húsfundi hér. Við héldum líka partý sjálf sem heppnaðist prýðilega þökk sé brennivíni og ísraelskum ipod með öllum eurovisionlögum sem gefin hafa verið út. Reyndar hurfu allir gagnkynhneigðir Bandaríkjamenn út með hraði þegar eurovisionlögin voru sett á fóninn en þar fyrir utan þá var þetta ótrúlega gaman. Myndir má sjá hér.

Nú og svo er ég búin að reyna að kynnast nágrönnum okkar. Það gengur frekar brösuglega. Við hliðina á okkur býr kínverskt par sem heldur upp öflugu félagslífi og spilaklúbbi með tilheyrandi ópum og skrækjum. Ég var því nokkuð viss um að þetta væri hresst fólk en svo reyndist ekki vera. Á móti býr indælis stúlka frá Alabama sem er í sama prógrammi og Geir. Afi hennar á byssu og hún kann margar góðar sögur frá Alabama. Skrítnasti nágranninn er svo kúrekinn. Kúrekinn er alltaf úti á verönd á nærjunum og heilsar að kúrekasið þegar við förum út með ruslið. Hann er að öllu leyti kúreki nema einu; hann blastar eurotechno fullum styrk og er meira að segja með dj-búr inni hjá sér. Ég held að annaðhvort sé hann geðveikt skemmtilegur eða fjöldamorðingi. Sjáum til.

Í seinustu viku var svo orientation í skólanum og mér líst mjög vel á þetta. Ég tek þrjá kúrsa og eitt seminar. Þetta er samt í rauninni bara 3 kúrsar þar sem seminarið felst einungis í því að það koma fyrirlesarar og segja okkur frá rannsóknum sínum. Eina sem nemendur þurfa að gera er að mæta.

Restin hefur svo farið í það að redda ökuskírteini, skoða bíla, pæla í almenningssamgöngum, fara í IKEA, læra að rata og annað leiðinlegt sem ég nenni ekki að skrifa um. Skriffinnskubrjálæðið hérna ýtir dálítið undir heimþrána en nú fer skólinn að byrja á mánudaginn svo það ætti að hverfa bráðum.

Á morgun erum við svo að fara til Atlantic City og á miðvikudaginn kemur herr Heimisson í heimsókn. Ég ætla að reyna að vera duglegri að blogga á næstu mánuðum.

Já og ef einhver vill fá innlit/útlit túrinn um íbúðina þá eru myndir hér. Þetta eru EFTIR myndir en ekki fyrir. Við erum að reyna að ná fram þessu rough háskólalúkki í staðinn fyrir Bree Van De Kamp lúkkið sem virðist ráða ríkjum sumstaðar hér í hverfinu.

Skýring á því afhverju Geir er hrifinn af mér

14 Sep
You scored as Maximus. After his family was murdered by the evil emperor Commodus, the great Roman general Maximus went into hiding to avoid Commodus’s assassins. He became a gladiator, hoping to dominate the colosseum in order to one day get the chance of killing Commodus. Maximus is valiant, courageous, and dedicated. He wants nothing more than the chance to avenge his family, but his temper often gets the better of him.

Maximus
75%
Batman, the Dark Knight
54%
Captain Jack Sparrow
54%
Neo, the „One“
46%
Indiana Jones
46%
James Bond, Agent 007
42%
The Amazing Spider-Man
42%
The Terminator
38%
Lara Croft
33%
El Zorro
33%
William Wallace
21%

Which Action Hero Would You Be? v. 2.0
created with QuizFarm.com

Patriot [orð að eigin vali]

12 Sep

Síðastliðna daga höfum við fengið pizzakassa með risamynd af bandaríska fánanum og áletruninni GOD BLESS AMERICA, séð auglýsingu um patriot day og patriot bank og í dag kom cable gaurinn og sagði: „Hi, I’m from Patriot“.

Where the hell is Matt?

11 Sep

Ég held það sé ótrúlega gaman að vera þessi gaur: http://www.wherethehellismatt.com/index.html. Sýnir bara að það skiptir engu máli þó að fólk sé gjörsneytt öllum takti og danshæfileikum.

Bling bling

6 Sep

Hér í Prinsatúni tíðkast, sem og á svo mörgum öðrum stöðum í heiminum, að skilja gamalt dót sem þú ætlar að henda en telur að geti ef til vill nýst öðrum eftir úti á gangstéttarbrún eða við hliðina á ruslagámi hverifins. Þar sem ég get verið nískari en andskotinn þá fylgist ég grannt með þeim ruslagámum og gangstéttarbrúnum sem ég geng fram hjá. Hingað til hef ég séð eftirfarandi muni:

  1. Bleikan stofustól
  2. 3 eldhúskolla með málningarslettum
  3. 15″ tölvuskjá
  4. 2 lampaskerma
  5. Ísskáp
  6. Gardínustöng, ennþá í pakkningunum
  7. Ofnskúffu
  8. 2 spariglös
  9. 1 bolla með áletruninni: Hot chocolate
  10. 2 bolla úr sparistelli Svíakonungs.

Já það er ekki á hverjum degi sem maður finnur hluta af sparistelli hans hátignar Karls Gústafs Svíakonungs og því gat ég ekki annað en hirt bollana. Þeir eru mjög fallegir og munu vafalaust vekja talsverða lukku hjá upprennandi bandarískum úthverfafrúm sem ég ætla að bjóða í kaffi til mín. Þessir gullmolar verða vaskaðir vandlega upp og hafðir til sýnis, það er víst.