Sarpur | nóvember, 2006

Þú veist að þú ert í vondum málum þegar

29 Nóv

…hús, tré og vegir breytast í innviði frumna

…bílnúmer breytast í vigra (bara á Íslandi)

…jólaslaufur breytast í próteinstrúktúra

mér datt ekkert meira í hug svo sennilega er ég ekki í svo slæmum málum.

Annars vil ég óska litlu systur til hamingju með 15 ára afmælið. Hún hefur heppnast vel stelpan.

Úthverfalíf í máli og myndum

24 Nóv

…aðallega myndum samt vonandi. Þar sem ég er búin að vera stjarnfræðilega léleg að láta vita af mér þá kemur hér allur nóvembermánuður og smá af október. Ástæðan er einfaldlega sú að í Drexel ákvað einhver að það væri sniðugt að hafa midterm og verkefni sem eru jafngildi midterma í öll í einum hóp í nóvember en samt ekki á neinum ákveðnum tíma, engin svona midterma-vika eins og annars staðar. Þannig gæti fólk verið hresst og skemmtilegt í september og október og leiðinlegt og stressað í nóvember og desember. Þetta hefur vafalaust hjálpað mörgum að eignast vini svona í byrjun til að fara síðan á stresstrúnó með í nóvember. Fyrir áhugasama þá fór ég í 3 midterm, tvö gengu vonum framan en eitt gekk ekki vel, serves me right þar sem iðjusemin lét á sér standa, ég er semsagt ennþá jafn löt. Enníveis, þar sem núna er ég í fríi sem ég ætti að nýta til að læra þá ætla ég að dröslast til að blogga en prófa að gera það svona Bjarnheiðar-style með myndum inní því það er svo skemmtilegt aflestrar.

Fyrst ber að nefna að í lok október komu Trausti frændi og Edda kærastan hans í örstutta heimsókn, en þó nógu langa til að ég næði af þeim mynd. Þau eru í klikkaðri reisu um Bandaríkin og nágrenni og eru búin að fara til Californiu, Florida, Vegas og ég veit ekki hvað, held þau séu núna í karabíska hafinu.

Trausti og Edda

Trausti og Edda

Margir hafa spurt hvort ég eigi einhverja vini og get ég stolt sagt frá því að ég er búin að kynnast tveimur bílasölum sem ég er aðallega með. Ég er miklu meira fyrir að hanga með strákum. 

Steve og Bob bílasalar og fáránlega fínir gaurar

Mamma, pabbi og Guðrún komu líka í örheimsókn og var það vel. Við fórum í rútuferð um New York, í úthverfamall hérna í NJ og svo tók ég pabba með í tíma. Ég held að vinir mínir hafi haldið að ég væri hætt að hanga með þeim því þau eru svo barnaleg og væri byrjuð að hanga með prófessorum í staðinn.

Úthverfapakk í stórborginni

Í október komu líka haustið og haustlitirnir. Við ákváðum því að fara að taka myndir til að senda heim en einhvern veginn varð ekkert úr því. Hins vegar tók ég mynd af Geir til að nota á bókakápur þegar hann verður virtur fræðimaður. Verst að lærdómsritin eru ekki með hallærislegar myndir af þýðendum aftan á. Hlýtur að breytast.

Bókakápu-Geir

Í byrjun vikunnar bjuggum við til gardínur úr afgangsefni sem fékkst mjög ódýrt í IKEA, slaufu utan af pakka og snæri sem ég fékk gefins í IKEA. Ég er ekki lítið stolt af árangrinum og er að hugsa um að hætta í skóla og sérhæfa mig frekar í ódýrum heimilislausnum. 

Gardínurnar góðu

Mér til mikillar gleði elti lítil kisa Geir heim og var hjá okkur í nokkra tíma. Nú er ég alveg sjúk í kisu og skoða adoption heimasíður á hverjum degi. Skynsemin hefur samt yfirhöndina ennþá þar sem kisueign myndi endanlega festa mig sem húsmóður og gera ferðalög erfið.

 

Kisan Toullie

Til að fagna „próflokum“ skellti ég mér til New York að hitta Ragnheiði Helgu. Þeirri ferð eru gerð góð skil á síðunni hennar. Sannaðist þar endanlega að ég er bara ekki djammari en mjög góð á útsölum. Við tókum engar myndir.

Í dag var svo Þakkargjörðarhátíð. Þar sem við erum patriots (pöntum patriot pizzu, erum með patriot media kapal og eigum the patriot á dvd) þá héldum við upp á hana með því að elda íslenskt lambalæri eftir uppskrift á netinu. Þessi blanda af íslenskri hefð og netvæðingu heppnaðist einstaklega vel. 

Patriot girðing sem ég rakst á í NY

Já, framundan eru lokaverkefni og próf og því verður sennilega ekkert jóladagatal í ár. Ég kem svo heim 18. desember og verð til 3. janúar fyrir þá sem að eiga inni hjá mér nammi. Takk allir sem svöruðu könnuninni og vildu svara könnun en gátu það ekki af einhverjum ástæðum (t.d. Sigga sem las þetta fyrst í dag og allir sem ekki nota linsur.)

Sjóndaprir netprófssjúklingar óskast

11 Nóv

Ef þú lesandi góður hefur notað eða notar linsur þá máttu endilega senda mér tölvupóstfangið þitt á vallah [hjá] gmail. Þá færðu ótrúlega skemmtilega könnun í pósti sem tekur varla nema 1 mínutu að svara (nema þú sért treg/tregur). Könnunin er verulega óvísindalega unnin en þeir sem taka þátt fá amerískt nammi þann 18. desember og ævarandi þakklæti mitt.

Nú þykir mér Týra

9 Nóv

Ég dýrka Tyru Banks! Hún er steiktasta stelpa í heimi. Eftir að við fengum okkur kapal þá höfum við horft á svona milljón þætti af The Tyra Banks Show og það klikkar ekki að í hverjum einasta þætti tekur hún á brýnum málefnum eins og „Girls that are beautiful but still feel bad inside!“. Bíddu ég hélt að ljótt fólk hefði einkarétt á að líða illa? Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Tyra hefur líka alltaf eitthvað gáfulegt að segja og tekur oftar en ekki dansspor með. Ég get ekki beðið þangað til í næstu viku, þá ætlar hún að þykjast vera karl í einn dag.

Popp og kók

5 Nóv

Við Geir ákváðum að kóróna letikast seinustu þriggja daga með því að fara og sjá myndina The Prestige. Myndin er góð og sérstaklega Christian Bale sem hefur aldrei leikið í lélegri mynd svo ég viti til og mæli ég með henni. Við gerðum hins vegar þau mistök að kaupa tilboð sem bauð upp á miðstærð á kóki og nachos. Þegar við sáum miðstærðina fór ég að hlæja því að miðstærð er meira en lítri og ég er ekki að ýkja. Við báðum því um litla kók og það var sennilega svona 0,7 lítrar. Þess má geta að vanalega ef þú kaupir stóra kók þá fylgir frí áfylling. Gaurinn sem seldi okkur kókið virtist samt sjá firringuna í þessu því hann fór líka að hlæja. Svo því að ég er auli og veit ekki muninn á salsa og guacamole þá fengum við heilt glas af guacamole með nachosinu. Við fórum því inn með næstum tvo lítra af gosi, nachos og glas af guacamole flissandi eins og fífl. Ég skil núna betur offituvandann hér í USA.