Sarpur | janúar, 2007

Ógeðslega fyndið

30 Jan

Óttar bendir á þetta góða myndband á síðunni sinni og þökk sé þessum Norsurum þá hef ég ekki hlegið svona mikið lengi, gæti samt verið því klukkan er að ganga 4 en samt.

Sjá hér því ég nenni ekki að gera þetta fancy smancy: http://www.youtube.com/watch?v=s-mOy8VUEBk

Þunnir veggir

27 Jan

Í svefnrofunum heyrði ég undarlegt hljóð. Ég hugsaði ekki meira um það og fór í sturtu. Svo þegar liðið var á daginn heyrði ég það aftur og skildi þá hvað það var. Nágranninn var að snýta sér.

Update: Þetta er verra en ég hélt. Virðist sem að veggirnir séu nægilega þunnir til að sýklar geti skriðið í gegnum þá og smitað mig af kvefinu. Sucks!

Leti og löðurmennska

16 Jan

Nú sit ég ekki í kotinu okkar heldur í einhvers konar lærdómsmusteri sem Geir hefur aðgang að. Fórum hingað þar sem ég kem mér aldrei að verki ef ég get mögulega gert eitthvað annað. Musterið er sennilega á stærð við Dómkirkjuna og mikið skreytt. Það eina sem skemmir rómantíkina og kósíheitin í þessari fullkomnu lærdómsaðstöðu er flóðljósið í loftinu. Hverjum datt það eiginlega í hug? Ég tel mér trú um að þetta ljós slökkvi fróðleiksþorsta minn ekki letin. Mér finnst annars skrítið að innrætta lærdómsaðstöðu eins og kirkju. Litað gler í gluggum, útskorið tré og hvolfþak. Stundum er Princeton svo súrrealískur bær. Annars er mjög lítið af okkur að frétta. Skólinn byrjaði í seinustu viku hjá mér en Geir er í prófalestri. Veðrið hérna er gott, eiginlega of gott. Það er svona útlandalykt úti. Mér líst ekki á þessa þróun, það verður hlýrra með hverju árinu. Jæja ég er hætt að fresta. Þau sem hafa áhuga á kirkjulegum húsum geta séð lærdómsmusterið hér: http://etcweb.princeton.edu/Campus/text_Chancellor.html  

Steik…

8 Jan

Áðan var ég að taka til og fann þá poka frá versluninni Forever 21 sem er góð búð bæði fyrir sparsama og aldurskomplexaða. Jæja, það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að neðst á pokanum stendur John 3:16 (með fylgir minnsta mynd í heimi af pokanum). Ég hugsaði strax nei hættið nú alveg þarna klikkuðu repúblikanarnir ykkar (þetta eru fordómar og ég veit það og er að reyna vinna í þeim, þessir fordómar mínir eru aðallega byggðir á Ann Coulter sem ég hata eins mikið og hægt er að hata einhvern sem maður aldrei hefur hitt) en eftir gúgl og grams á netinu komst ég að því að eigandinn er guðhræddur Kóreubúi sem nýtir innkaupapoka sem einhvers konar trúarjátningu. Fordómunum þar með troðið ofan í kok. Spes samt…

img_0807-1.jpg

Sexy sögur…

2 Jan

Í gær urðu fjórar manneskjur fyrir verulegum vonbrigðum af mínum völdum. Þessar fjórar manneskjur eiga það allar sameiginlegt að hafa googlað „sexy sögur“ því þeir sem það gera fá þetta blogg í þriðja sæti. Aumingja fólkið hefur síðan smellt á tengilinn og uppskorið lítið annað en nöldur um málfar og myndir af nördum með hárkollur. Sennilega hef ég því óafvitandi drepið alla sexy stemmningu…ekki í fyrsta skipti. Aumingja litlu perrarnir, fyrir þá set ég hér smekklega dónamynd frá því í gamla daga.

Einhver Norsari hefur síðan googlað Ikea Valla (Valla er held ég smábær í Noregi) og þar er þessi síða fyrst á lista. Fyrir hann get ég lítið gert.