Sarpur | maí, 2007

Útilegustólarnir

29 Maí

Í dag var ógeðslega heitt inni hjá okkur en bara alveg passlegt úti svo að við ræktuðum okkar innri redneck og vígðum útilegustólana með sprite í dós og frosinni pizzu (vorum samt búin að þíða hana). Þetta þótti held ég fremur skrítið og vorum við litin hornauga af nokkrum nágrönnum og hópi franskra hlaupara sem voru allir berir að ofan. Við bentum bara á þá og hlógum. Þeir voru sjálfir asnalegir, berir að ofan úti að hlaupa í hóp. Því miður gleymdi ég að taka mynd af vígslunni (sorry Ösp). Þessi tilgangslausa saga var í boði þess að ég er að fara í ógeðslega leiðinlegt próf á morgun.

Gott að eiga góða að

27 Maí

Eftir að ég kvartaði yfir því að það væri ekkert í útvarpinu hérna í New Jersey nema Justin Timberlake þá tók litla systir málin í sínar hendur og sendi mér safndisk í bílinn með tónlist. Ég verð því ekki alveg út úr þegar ég kem heim í sumar, heldur með nýjan endurbættan tónlistarsmekk 😉 Þetta er frábær diskur og Guðrún fær mörg rokkprik í kladdann. Annars er hitarakablandan byrjuð og Geir þess vegna hress sem fress. Við fórum því á útsölur og keyptum viftur og útilegustóla. Úthverfalífið er svoooo skemmtilegt 😉 Sjálf er ég aðallega að svíkjast undan því að læra…

Ný æði!

21 Maí

Ég er komin með tvö ný æði:

1. Börn sem blóta sjá hér og hér.

2. SNL klippur sjá hér.

Held þetta sé sennilega eitthvað hormónelt…nema ég sé orðin kani…eða bæði.

Austur-Evrópu mafían og stjórnarmyndunarviðræður

14 Maí

…skipta mig litlu máli en ég hef séð að þessi umræðuefni eru mjög móðins í netheimum og er að reyna að laða að lesendur. Sjálf er ég að njóta síðustu vikna æsku minnar og að melta með mér erfiða ákvörðun (þeir sem vita vita hinir fá að vita fyrir afmælið mitt þegar ég loksins ákveð þetta, ekki ólétt til að róa áhyggjufulla og svekkja t.d. Eddu). Er í átaki við að reyna að vakna snemma (kl. 7) og hafa hreint og snyrtilegt þar sem þvert á eðli mitt þá finnst mér þægilegra að hafa hreint og kem meiru í verk ef ég drullast til að vakna. Hingað til hef ég enst í tvo daga sem er persónulegt met. Afleiðingarnar eru samt að ég lít út eins og hálfviti (bólgin, rauð og með kóngabláa bauga, líkist helst fánanum) og get hvorki talað íslensku né ensku. Í gær „hljóp“ ég í 5 km hlaupi ásamt tugum þúsunda Philadelphiu-búa. Hlaupið var til styrktar brjóstakrabbameinsrannsóknum og það var ótrúlegt að sjá hve margir hafa misst einhvern úr brjóstakrabba, hafa lifað hann af eða vilja einfaldlega styrkja málefnið. Setti inn nokkrar misgóðar myndir frá því í apríl og maí. Fyrstu myndirnar eru frá íslenskri súkkulaðismökkun sem við stóðum fyrir ásamt Ragnheiði Helgu eftir að hafa uppgötvað að Whole foods selur suðusúkkulaði. Skeifan á andliti mínu er vegna kvefs sem olli því að ég fann EKKERT BRAGÐ. Næsta syrpa er af bleikum blómum í Princeton og var tekin fyrir Guðrúnu Helgu og svo er það hlaupið. ENJOY!

Myndir

Blikk blikk

8 Maí

Eru einhverjir fleiri sem fríka út af hræðslu þegar Eiríkur blikkar í spron auglýsingunni á mbl.is og visir.is? Fyrst efaðist ég um geðheilsuna en núna er ég eiginlega nokkuð viss um að mig langar ekkert að vera blikkuð af rauðhærðum rokkurum.

Staðgöngubloggarar

8 Maí

Á liðnum misserum hef ég gerst sek um einstaka leti í tilkynningarskyldu og bloggi og er nú svo komið að færslur eru nær eingöngu skrifaðar að áeggjan Aspar eða Ásdísar. Í dag hélt ég að það væri komin mjög patent lausn á þessum vanda. Ég er nefnilega búin að komast að því að með því að skoða bloggið hennar Ásdísar eða Ragnheiðar Helgu þá er hægt að fylgjast með flestöllu sem gerist í mínu lífi. Hins vegar, eftir að hafa gert þessa uppgötvun og orðað hana við þær stöllur á feisbúkk er ég eiginlega komin á þá skoðun að sennilega ætti ég SJÁLF að blogga aðeins oftar og hygst nú bæta mig hægt og rólega.

Til hamingju með afmælið Geir!

6 Maí

Geir á afmæli í dag 🙂 Í tilefni þess héldum við örafmæli fyrir okkur tvö og kisu. Við fengum gulrótarköku og kisa nartaði í blóm.

smmai07-024.jpg

smmai07-032.jpg