Sarpur | 4:08

Fótafegurð er pain

1 Jún

Í dag tókst mér að fá blæðandi blöðrur á stærstu tærnar, minnstu tærnar, hælana og á iljarnar. Eina sem slapp var ristin. Ég lenti líka í hrókasamræðum við þýska konu í lestinni. Hún fór eiginlega óumbeðin á trúnó og hún sagði mér að hún hefði baðað sig nakin á Tenirife þar sem það var bannað. Sagði að þetta hefði verið rosakikk. Mig langaði ekkert að vita það. Hún sagði mér líka að hún hefði byrjað að lifa í mómentinu þegar hún varð þrítug. Held samt hún hafi varla verið eldri en þrjátíu og eins svo kannski er hún bara nýbyrjuð að lifa í mómentinu. Held að mómentalíf sé skemmtilegt og get því ekki beðið eftir því að verða þrítug.

Í gær varð ég samt ekki nema tuttugu og fimm. Mér til mikillar undrunar létu aldurskomplexarnir mig að mestu í friði nema þegar Sigrún Þöll bauð mig velkomna á seinni partinn milli tvítugs og þrítugs. Það var skerí. Geir var með dagskrá fyrir mestallan daginn og því var rosagaman og ég gleymdi því næstum hvað ég sakna allra mikið. Við fórum út að borða og í hádegismat OG í súkkulaðibúðina! Svo var ég einstaklega netfélagslynd og leyfði mér að hafa kveikt á msn/skype/googletalk næstum allan daginn (er í átaki sem felst í því að hafa slökkt á samskiptaforritum því ef það er kveikt þá læri ég ekki). Þakka góðar samræður og kveðjur 🙂 Er samt eiginlega laus við heimþrána þar sem ég keypti miða heim áðan. Kem 30. júní og fer 10. september svo ég kemst í gæsun, reunion, afmæli aldarinnar, brúðkaup og næ fæðingu litla frænda / litlu frænku Guðnýjar og Kiddason/dóttur (veit kynið en ætla ekki að skemma fyrir þeim sem ekki vita). Ég hef ekki verið jafnspennt fyrir barnsfæðingu síðan Guðrún Helga fæddist og er strax farin að skipuleggja hvernig ég næ að verða uppáhaldsfrænka.