Sarpur | 4:55

Lestin er líf mitt

6 Jún

Í dag var maður með tvo litla kettlinga í lestinni og í gær voru Svíar sem vissu ekki að ég skildi (eiginlega) hvað þeir sögðu. Reyndar sögðu þeir ekkert merkilegt en samt. Það eru litlu hlutirnir sem halda í manni lífinu í prófatíð.

Síðustu dagar hafa verið snældubilaðir hvað varðar verkefnaskil og annað rugl og tókst mér t.d. að skila eyðublaði þar sem stóð: „the patient must have AT LEAST one foot“ (helst þrjá). Síðan drullaðist ég loksins til að tala við óhugnarlegasta prófessor í heimi um heimadæmaskil sem hann snuðaði mig um. Til að skilja þarf að gera sér grein fyrir að hann var í hernum og þar að auki hatar hann fólk sem spyr ekki spurninga og að ég spyr aldrei spurninga. Þannig að þegar ég byrjaði að babbla um að ég hefði sent honum milljón tölvupósta og ekki fengið svar spurði hann „Ok, whatever just tell me, WHAT IS THE PROBLEM?“ (lesist með mjög ógnandi röddu og hækkun í endann) þá stamaði ég: „Well, I’m just very nervous!“. Ó, Valgerður! Vissulega er það vandamál en kannski ekki það sem hann vildi vita. Karlinum þótti þetta samt svo fyndið að hann blíðkaðist allur upp og ætlar að plögga dæmin.