Sarpur | júlí, 2007

Klukkedíklukk

27 Júl

Var klukkuð af henni Bjarnheiði og þar sem hún efndi til kapphlaups meðal x-ara verð ég að svara með hraði. Hér koma því 8 lítt þekktar staðreyndir um mig (er það ekki annars pointið?) því miður ekki jafnítarlegar og hjá Bjarnheiði en ég vil nú ekki tapa.

1. Uppáhaldsbækurnar mínar í barnæsku voru Heimur í hnotskurn og Maðurinn. Svei mér þá ef þær eru ekki bara ennþá í nokkru uppáhaldi.

2. Ég sleppti því að lesa 4. bókina í Harry Potter seríunni því mér fannst hún svo leiðinleg. Gerði 3 tilraunir en gafst upp. Þetta seinkaði mér um 3 ár í Harry Potter lestri. Nú hef ég hins vegar klárað bókaflokkinn og líkaði vel.

 3.  Glenn Miller er í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki margir yfir fimmtugt sem eru sammála en… Þessi áhugi varð reyndar til þess að systir mín fékk 10 í hlustun á tónmenntaprófi (segir hún) þar sem greyið heyrði tónlistina alltaf gegnum vegginn.

4. Þegar vel liggur á mér, er ég ágætis Owen Wilson eftirherma. Fer samt vanalega að flissa yfir eigin fyndni og eftirhermuhæfileikum svo að þessi eftirherma er sjaldséð.

5.  Ég kann ekki að sleppa höndum þegar ég hjóla. Ástæðan er sennilega sú að ég er skræfa og ekki með neitt súper-jafnvægisskyn. Samt aðallega skræfa.

6. Þegar ég var yngri fannst mér mömmó ótrúlega leiðinlegur leikur og vildi helst annaðhvort kubba eða vera í Barbie. Af einhverjum ástæðum fannst Barbie líka leiðinlegt í mömmó og vildi frekar halda ræður og fara í matarboð. Barbie áhuginn er horfinn en mér finnst ennþá gaman að kubba.

7. Ég er komin af dæmdum barnamorðingja í þráðbeinan karllegg (ef ég sjálf er frátalin að sjálfsögðu). Hann var tekinn af lífi og alles. Þetta er líklega ástæðan fyrir óeðlilegum áhuga mínum á bókum og sjónvarpsefni um morð og glæpi. Einhvern tímann ætla ég að rannsaka þetta morðmál ofan í kjölinn. Æfi mig fyrst í CSI leiknum sem ég fékk í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum.

8. Blóðflokkur O-, gæti komið sér vel að sem flestir viti það ef eitthvað kemur upp á (þessi staðreynd er dálítið langsótt en ég er hugmyndasnauð)

 Klukka Geir, Ölmu, Freyju, Guðnýju og Rástu. Fyrst/-ur til að klára fær dýrindis strokleður.

Bækur

25 Júl

Það skemmtilegasta sem ég veit er að lesa. Lestur hefur aldrei verið mér kvöð (ef frá er talinn lestur skólabóka) og ég les að alltaf að minnsta kosti eina bók í mánuði. Eftir ágætisspjall við Ösp, sem að öðrum ólöstuðum er ein best lesna kona sem ég þekki, þá uppgötvaði ég að þrátt fyrir allan þennan lestur þá hef ég eiginlega ekki lesið neinar heimsbókmenntir, sárafá íslensk bókmenntaverk og enn færri fræðibækur. Hvað er ég eiginlega búin að vera lesa? Syrpuna? Ég held í þá von að eftir 50 ár verði bækurnar sem ég hef lesið orðin klassísk bókmenntaverk en einhvern veginn hálfpartinn efa ég það. Eftir þessar pælingar ákvað ég að setja saman leslista yfir bækur sem ég annaðhvort á og hef ekki lesið (til dæmis Don Kíkóta og Lord of the Rings), bækur sem ég hef alltaf ætlað að lesa en einhvern veginn alltaf gleymt þeim þegar ég fer á bókasafnið og velja svo kannski eitthvað úr blessuðum heimsbókmenntunum. En nú langar mig að biðja lesendur (líka þá sem lesa og aldrei kommenta og þá sem ég þekki ekki mikið) að koma með uppástungur að bókum og skrifa þær í kommentakerfið svo ég fái hugmyndir á listann. Plís plís plís skiljið eftir komment! Það verður svo miklu skemmtilegra ef svörunin er góð. 

WTF

24 Júl

Horfði á Bold and the Beautiful áðan. Þátturinn hefur náð nýjum hæðum í fáránleika og rugli. Stephanie er orðin hálfgeðveik og feikaði hjartaáfall. Hún er líka helsta illmenni þáttanna að mati siðblindu rugludallanna sem eiga að vera góðir (enda sú eina sem hefur bara farið í nokkrar lýtaaðgerðir held ég, nema hún sé 110 ára). Taylor lítur út eins og Michael Jackson með tvær appelsínur framan á sér og svo stóran munn að hún þarf eiginlega ekkert að opna hann til að tala. Brooke hefur slegið sjálfa Afródítu út í kynþokka og er með David Bowie karlinn, Ridge og Eric slefandi á eftir sér. Línur eins og: „I’m glad you don’t want to cheat on your husband because I want to be him someday“ gefa góða mynd af hæfileikum handritshöfunda. Toppurinn á þættinum var samt þegar Stephanie vildi horfa á Eric og Brooke uppi í rúmi til að sjá hvort á milli þeirra væri ást eða losti. Jahá…

Harry Potter

24 Júl

Maraþoninu lauk á sunnudaginn en eitthvað hef ég ofreynt mig þar sem að nú dreymir mig bara Harry og félaga. Skárra en að dreyma skýrslur eða stærðfræðidæmi en samt…

Ritstífla

18 Júl

Ég hefði ekki átt að lofa því í seinastu færslu að ég skyldi blogga meira þar sem ég get aldrei gert neitt ef það er skylda eða kvöð. Hér kemur þó upptalning í skeytastíl. Á laugardaginn gæsuðum við Heiðdísi og fokk hvað það var ótrúlega gaman. Ég hef aldrei gæsað áður og eiginlega varla farið í brúðkaup en nú hygst ég troða mér í þau flest. Gamanið var meira að segja það mikið að daginn eftir tók sig upp aftur ömurlegt kvef og því er ég búin að vera alveg raddlaus síðan á sunnudaginn. Viðbrögð fólks við hvísli eru mjög fyndin. Flestir byrja að hvísla með en sumir virðast þó telja að ég sé eitthvað pervert eða geðveik. Bjarta hliðin við kvefið er þó að sennilega næ ég Harry Potter markmiðinu (Alma, ég tek mogm tilboði þínu, búin með 5. bók og myndina og hálfa 6. bók). Ástæðan fyrir því að ég ætla að klára seinustu bækurnar í einum rykk er ekki að ég sé brjálaður aðdáandi heldur sú að viss fáviti kjaftaði endinum að 6. bók og það skal sko ekki koma fyrir aftur. Þegar ég er ekki að lesa Harry Potter er ég að eyða peningum á netinu. Skemmtilegt!

Pimp my blog

11 Júl

Jæja, nú er ég búin að laga bloggið og ætla að vera aðeins duglegri að uppfæra og skrifa hér inn. Seinustu vikur eru búnar að vera mjög viðburðaríkar með prófum, ferðalögum, vinnu og hittingum. Ég nenni eiginlega ekki að segja frá öllu sem hefur gerst seinasta mánuðinn en skal glöð ræða það in person 🙂  

Annars datt mér það snjallræði í hug að reyna að frumlesa Harry Potter 5 og 6 áður en 7 kemur út. Annað eins hefur nú gerst en þetta er dálítið maraþon svo kannski ég safni áheitum.

Komin heim

1 Júl

…og sá meira að segja flugdólg, eða öryggisleitardólg to be precise.