Bækur

25 Júl

Það skemmtilegasta sem ég veit er að lesa. Lestur hefur aldrei verið mér kvöð (ef frá er talinn lestur skólabóka) og ég les að alltaf að minnsta kosti eina bók í mánuði. Eftir ágætisspjall við Ösp, sem að öðrum ólöstuðum er ein best lesna kona sem ég þekki, þá uppgötvaði ég að þrátt fyrir allan þennan lestur þá hef ég eiginlega ekki lesið neinar heimsbókmenntir, sárafá íslensk bókmenntaverk og enn færri fræðibækur. Hvað er ég eiginlega búin að vera lesa? Syrpuna? Ég held í þá von að eftir 50 ár verði bækurnar sem ég hef lesið orðin klassísk bókmenntaverk en einhvern veginn hálfpartinn efa ég það. Eftir þessar pælingar ákvað ég að setja saman leslista yfir bækur sem ég annaðhvort á og hef ekki lesið (til dæmis Don Kíkóta og Lord of the Rings), bækur sem ég hef alltaf ætlað að lesa en einhvern veginn alltaf gleymt þeim þegar ég fer á bókasafnið og velja svo kannski eitthvað úr blessuðum heimsbókmenntunum. En nú langar mig að biðja lesendur (líka þá sem lesa og aldrei kommenta og þá sem ég þekki ekki mikið) að koma með uppástungur að bókum og skrifa þær í kommentakerfið svo ég fái hugmyndir á listann. Plís plís plís skiljið eftir komment! Það verður svo miklu skemmtilegra ef svörunin er góð. 

10 svör til “Bækur”

 1. Ragna Miðvikudagur, 25 júlí 2007 kl. 16:39 #

  Rosalega ertu dugleg að blogga þessa dagana 😉
  Annars er ég svona svipuð og þú – les mikið en samt ekki þetta sem maður á að lesa. Annars mæli ég með Góða dátanum Svejk – allt annað sem ég get mælt með kemst ábyggilega ekki á listann þinn hvort eð er 😉 Geturðu bara annars ekki byrjað á grísku bókmenntunum? Er ekki nóg til af þeim á þínu heimili?

 2. valla Miðvikudagur, 25 júlí 2007 kl. 16:47 #

  Takk! Góði dátinn Svejk er einmitt bók sem ég hef lengi ætlað að lesa en var búin að gleyma 🙂 Annars þarf þetta ekki að vera neitt svakalegt, bara uppáhaldsbækur lesenda, mér er meira að segja sama þó þær séu eftir Þorgrím Þráinsson 😉 Geir hefur verið ötull við að gauka að mér grískum bókmenntum en ég nenni aldrei að lesa þær, held það sé bara því hann vill það hehe 🙂

 3. Guðný Miðvikudagur, 25 júlí 2007 kl. 18:30 #

  hehehehehhe Sko þú verður náttúrulega að lesa heimsklassabækurnar á Hverfanda hveli.. ég skal lána þér 😉 Ananrs held ég að Harry potter verðu nú heimsklassaverk seinna meir.
  svo geturu lesið Anna Karenina eftir Lev Tolstoj.
  Annars les ég nú mest bara af einhverju sem mér finnst skemmtilegt og langar að lesa ég mæli með bókunum eftir Arnald Indriðason ef að þig langar að lesa íslenskt. Mér finnst líka bækurnar eftir James Patterson mjög skemmtilegar og spennandi og svo er bókin Furðulegt háttalag hunds um nótt eftir Mark Haddon mjög góð bók. Bækurnar um Dexter eru líka snilld höfundurinn heitir Jeff Lindsay. Þetta er það sem mér dettur í hug í bili.

 4. Geir Miðvikudagur, 25 júlí 2007 kl. 21:15 #

  Ég er að sumu leyti eins og þú, nema hvað þú lest miklu meira af bókmenntum en ég (fornaldarbókmenntir og fræðitextar undanskildir): Ég á svo margt eftir ólesið.

  Uppáhaldsbækur? Ég held þú hafir lesið mínar uppáhaldsbækur: Dýrabæ, Birtíng…

  Ég mæli með að þú byrjir á að lesa Eglu! Þegar þú ert búin með hana skal ég pota að þér Russell.

 5. Alma Fimmtudagur, 26 júlí 2007 kl. 9:12 #

  Ég er á ægilega lágu plani bókmenntalega séð. Hef lesið stytta útgáfu af Don Quijote (og ég lærði spænsku) og mæli ekki með því að lesa nema kannski fyrstu hundrað blaðsíðurnar. Afgangurinn er bara blaður. Skemmtilegur lestur gæti verið eitthvað eftir Auði Haralds, Sue Townsend eða Kristínu Marju Baldursdóttur. Annars er ég að byrja á nýju bókinni eftir Khaleid Hosseini (höfund Kite Runner, kannski vitlaust skrifað á honum nafnið). Ertu búin að útvega hana?

 6. dhk Fimmtudagur, 26 júlí 2007 kl. 9:28 #

  Ég er sammála Guðnýju um hundsbókina og bæti Brave new world á listann. Mér fannst hún skemmtileg.

 7. Ragna Fimmtudagur, 26 júlí 2007 kl. 9:44 #

  Ef allt er leyfilegt þá mæli ég með bókunum Wicked og Son of a Witch eftir Gregory Maguire. Þetta eru nánast einu bækurnar sem ég hef lesið frá því ég flutti út (fyrir utan Dan Brown), fyrri fjallar um vondu galdranornina úr Galdrakallinum í Oz og hversu misskilin hún var og hin er framhald og fjallar um son hennar eftir að Dorothea drap hana. Þú mátt fá þær í láni þegar þú kemur aftur út í haust 😉

 8. Arnþór L. Arnarson Fimmtudagur, 26 júlí 2007 kl. 14:08 #

  Það er auðvitað mest banalt að nefna Laxness og Þórberg, en það er líka mest satt. Ég held að maður læri mest í stílbrögðum af þessum höfundum. Og svo er flest það sem þeir skrifa bara mjög svona áhreyrilegt aflestrar ( ef það er leyfilegt að orða það svo ).

  Hamsun ( hinn norski ) er líka nokkuð skemmtilegur þó hann sé e.t.v. frekar gamaldags. Pan og Gróður jarðar, eru fínar. Gróður jarðar og td Sjálfstætt fólk eru mjög tengdar bækur; þar sem Sjálfstætt fólk er í raun skrumskæling á Gróðri jarðar.

  Þúsund og ein nótt er líka gagnleg. Maður lærir ýmislegt um sögufléttun og þau áhrif sem hægt er að skapa með breytingum á sjónarhornum, og breytingum á „sviðsmyndum“. Þá meina ég að það er bara eitthvað spennandi við anda sem koma upp úr flöskum, og neðanjarðarhallir úr gimsteinum, eða kónga sem dífa höfði sínu í vatn og birtast þá á yfirgefinni strönd og lifa heilu lífi í sem smiðir á meðan þeir eru í raun enn bara með höfuðið í vatninu ( hljómar undarlega en þetta er mjög sniðugt ).

  Dostojevskí er nú óttalegur leiðidarfuskur þykir mér stundum, og hann kenndi mér ekki neitt nýtt hvað heimspeki varðar ( þó að hann eigi að þykja voða voða djúpur ) en sögusviðin eru nokkuð svona eftirminnileg og persónurnar eru djúpar.

  Tolstoj er miklu svona líflegri gaur. Að lesa Stríð og frið er soldið eins og að lesa mjög vel gerða sápu. Hún spannar svo vítt svið; fjölskyldu, tímabil í sögunni og persónur. Ég var íþm hrifinn.

  Rushdie er líka góður. Ég játa að ég var upphaflega með fordóma gegn honum. Mig grunaði að hann hefði verið hypaður upp í kring um Sálma satans og öllu því drama, en hann er í raun virkilega góður rithöfundur. Það er einhver glettni sem einkennir það sem hann skrifar, og ævintírablær ( sem er etv undir áhrifum frá Þúsund og einni nótt ( það er sérstaklega skýrt í einni bók sem ég er búinn að gleyma hvað heitir ( S. og sagna hafið … held ég. ))) Hann opnaði líka augu mín fyrir aðferð sem dregur ‘augu’ lesandans til og frá eins og linsa gerir í kvikmyndum. Hefur e.t.v. lýsingu á einhverju smáatriði sem maður áttar sig ekkert á, en setur svo þetta smáatriði í samhengi við stærra sjónarsvið, og þá smellur heildarlýsingin snilldarlega saman og skilar mjög áhrifaríkri lýsingu.

  Þetta er orðið alveg nógu langt í bili og ég er án efa að gleyma slatta. Annars er ég ekki mjög duglegur við að lesa skáldverk, er meira fyrir að lesa fræðidót; svoleiðis kemur af stað einhvernvegin miklu dýpri hreifingum í sálinni ( ef maður hittir á eitthvað spennandi ) en einhverjar fabúlur sem rithöfundar kokka upp.

 9. Freyja Föstudagur, 27 júlí 2007 kl. 10:01 #

  Sko…
  síðustu 2 ár hef ég bara lestið eina bók á íslensku ( nú tölum við um skemmtibókmenntir) þar sem ég nota lesturinn mest í tungumálaæfingar. Á dönsku mæli ég með t.d. Elsebeth Egholm, sakamálasögur sem gerst í Árhúsum og eru mjög skemmtilegar. Svo var ég að klára Män som hatar kvinnor eftir Stige Larsson, pínu ruglandi að lesa sænsku svona í bland við dönsku, en engu að síður. Ég er voðalega veik fyrir sakamálasögum og þarf helst að hafa eitthvað til að halda mér við lesturinn alveg frá síðu 10 (það er svona þangað sem ég kemst án þess að hafa eitthvað svaka spennandi 😉 )

 10. Bjarnheidur Föstudagur, 27 júlí 2007 kl. 10:02 #

  Held ég gæti hæglega skrifað jafnmikið og Arnþór þegar kemur að uppáhaldsbókum… en eigirðu Kristínu Marju eftir þá er t.d. „Karítas án titils“ mjög góð og af íslenskum höfundum ættirðu líka að tékka á Jóni Kalmani Stefánssyni af þessum yngri og Þórbergi Þórðarsyni af þessum eldri já og Þórarni Eldjárn af þeim þarna í miðið. Af heimsbókmenntum þykir mér t.d. „Tídægra“ eftir Boccaccio (miðaldaskemmtisögur frá Ítalíu) mjög góð. Af nýlegri bókum utan úr heimi sem mér þóttu góðar má nefna „Herra Íbrahím og blóm kóransins“ eftir Eric Emmanuel-Schmitt (og raunar allar bækurnar í þeim þríleik), „Amritu“ og fleiri eftir Banana Yoshimoto, „Söguna af Pí“ eftir Yann Martel, „Rússadiskó“ eftir Wladimir Kaminer (best samt að lesa hana á þýsku og er ekki erfiður texti samanborið við Dürrenmatt sem við lásum í 6. bekk) ýmsar bækur eftir Haruki Murakami. Núna er ég líka að lesa gullmola-fræðiritið „Ljóðhús“ eftir Þorstein Þorsteinsson um skáldskap Sigfúsar Daðasonar og skáldsöguna „Dauðann og mörgæsina“ eftir Andrej Kúrkov og hún lofar góðu. Loks langar mig að nefna Þjóðsögur Jóns Árnasonar 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: