Sarpur | Daglegt líf RSS feed for this section

Back in USA

20 Júl

Jæja, ég er komin aftur í hitann og svækjuna hérna í Princeton eftir frábæra ferð til Íslands með gæsunum, giftingum, mikkaboði, sundi og afslöppun. Ég verð nokkur ár að melta þessa ferð enda fannst mér hún bæði örstutt og ótrúlega löng. Fólk var búið að segja við okkur að það væri nú dálítið öðruvísi að vera gift en hvorugt okkar fann nokkurn mun enda erum við búin að vera klesst saman í næstum 10 ár. Kannski kemur það seinna.

Túristamynd - takið eftir blóminu

Það var erfitt að skilja Geir og kisu eftir og ekki hjálpaði til að Snæfellsjökull skartaði sínu fegursta þegar ég flaug frá Keflavík. Einhvern veginn er það þó alltaf þannig að þegar ég er komin upp í vél þá verður þetta allt betra og þó ég hafi aldrei búið ein þá lærist það fljótt. Erfiðast er að elda rétta skammta en ég hef nú aldrei verið flink við það hvort eð er. Við komuna var ég sótt af housesitterunum og þau bjuggu hérna hjá mér ásamt tveimur loðnum kisum og talandi páfagauk fyrstu dagana. Það gafst því eiginlega ekki tóm til að vera með heimþrá. Páfagaukurinn, Bird, gat hermt eftir reykskynjara, síma, bílum og eigendum sínum og var einstaklega taugaveiklaður.

Bird litli taugaveiklaði

Nú er svo planið að vinna eins og brjálæðingur by day og vinna upp nokkur ár af gelgjuþáttum by night…spennandi! Skelli inn nokkrum myndum úr ferðinni. Sumar fékk ég lánaðar hjá öðrum og þakka fyrir það!

Inga gæs sæl og glöð með Kvennahlaupsárangurinn - Mynd frá Mæju

Næst vel ég armbeygjukeppni - Mynd frá Helgu G

Kajak! - Mynd frá Helgu G

Awkward family photo framtíðarinnar? - Mynd frá Guðrúnu Helgu

Geir og David við Seljalandsfoss

Guðný og Kiddi yndislegu brúðhjón

Inga og Kári yndislegu brúðhjón

Úthverfalíf í máli og myndum

24 Nóv

…aðallega myndum samt vonandi. Þar sem ég er búin að vera stjarnfræðilega léleg að láta vita af mér þá kemur hér allur nóvembermánuður og smá af október. Ástæðan er einfaldlega sú að í Drexel ákvað einhver að það væri sniðugt að hafa midterm og verkefni sem eru jafngildi midterma í öll í einum hóp í nóvember en samt ekki á neinum ákveðnum tíma, engin svona midterma-vika eins og annars staðar. Þannig gæti fólk verið hresst og skemmtilegt í september og október og leiðinlegt og stressað í nóvember og desember. Þetta hefur vafalaust hjálpað mörgum að eignast vini svona í byrjun til að fara síðan á stresstrúnó með í nóvember. Fyrir áhugasama þá fór ég í 3 midterm, tvö gengu vonum framan en eitt gekk ekki vel, serves me right þar sem iðjusemin lét á sér standa, ég er semsagt ennþá jafn löt. Enníveis, þar sem núna er ég í fríi sem ég ætti að nýta til að læra þá ætla ég að dröslast til að blogga en prófa að gera það svona Bjarnheiðar-style með myndum inní því það er svo skemmtilegt aflestrar.

Fyrst ber að nefna að í lok október komu Trausti frændi og Edda kærastan hans í örstutta heimsókn, en þó nógu langa til að ég næði af þeim mynd. Þau eru í klikkaðri reisu um Bandaríkin og nágrenni og eru búin að fara til Californiu, Florida, Vegas og ég veit ekki hvað, held þau séu núna í karabíska hafinu.

Trausti og Edda

Trausti og Edda

Margir hafa spurt hvort ég eigi einhverja vini og get ég stolt sagt frá því að ég er búin að kynnast tveimur bílasölum sem ég er aðallega með. Ég er miklu meira fyrir að hanga með strákum. 

Steve og Bob bílasalar og fáránlega fínir gaurar

Mamma, pabbi og Guðrún komu líka í örheimsókn og var það vel. Við fórum í rútuferð um New York, í úthverfamall hérna í NJ og svo tók ég pabba með í tíma. Ég held að vinir mínir hafi haldið að ég væri hætt að hanga með þeim því þau eru svo barnaleg og væri byrjuð að hanga með prófessorum í staðinn.

Úthverfapakk í stórborginni

Í október komu líka haustið og haustlitirnir. Við ákváðum því að fara að taka myndir til að senda heim en einhvern veginn varð ekkert úr því. Hins vegar tók ég mynd af Geir til að nota á bókakápur þegar hann verður virtur fræðimaður. Verst að lærdómsritin eru ekki með hallærislegar myndir af þýðendum aftan á. Hlýtur að breytast.

Bókakápu-Geir

Í byrjun vikunnar bjuggum við til gardínur úr afgangsefni sem fékkst mjög ódýrt í IKEA, slaufu utan af pakka og snæri sem ég fékk gefins í IKEA. Ég er ekki lítið stolt af árangrinum og er að hugsa um að hætta í skóla og sérhæfa mig frekar í ódýrum heimilislausnum. 

Gardínurnar góðu

Mér til mikillar gleði elti lítil kisa Geir heim og var hjá okkur í nokkra tíma. Nú er ég alveg sjúk í kisu og skoða adoption heimasíður á hverjum degi. Skynsemin hefur samt yfirhöndina ennþá þar sem kisueign myndi endanlega festa mig sem húsmóður og gera ferðalög erfið.

 

Kisan Toullie

Til að fagna „próflokum“ skellti ég mér til New York að hitta Ragnheiði Helgu. Þeirri ferð eru gerð góð skil á síðunni hennar. Sannaðist þar endanlega að ég er bara ekki djammari en mjög góð á útsölum. Við tókum engar myndir.

Í dag var svo Þakkargjörðarhátíð. Þar sem við erum patriots (pöntum patriot pizzu, erum með patriot media kapal og eigum the patriot á dvd) þá héldum við upp á hana með því að elda íslenskt lambalæri eftir uppskrift á netinu. Þessi blanda af íslenskri hefð og netvæðingu heppnaðist einstaklega vel. 

Patriot girðing sem ég rakst á í NY

Já, framundan eru lokaverkefni og próf og því verður sennilega ekkert jóladagatal í ár. Ég kem svo heim 18. desember og verð til 3. janúar fyrir þá sem að eiga inni hjá mér nammi. Takk allir sem svöruðu könnuninni og vildu svara könnun en gátu það ekki af einhverjum ástæðum (t.d. Sigga sem las þetta fyrst í dag og allir sem ekki nota linsur.)

Popp og kók

5 Nóv

Við Geir ákváðum að kóróna letikast seinustu þriggja daga með því að fara og sjá myndina The Prestige. Myndin er góð og sérstaklega Christian Bale sem hefur aldrei leikið í lélegri mynd svo ég viti til og mæli ég með henni. Við gerðum hins vegar þau mistök að kaupa tilboð sem bauð upp á miðstærð á kóki og nachos. Þegar við sáum miðstærðina fór ég að hlæja því að miðstærð er meira en lítri og ég er ekki að ýkja. Við báðum því um litla kók og það var sennilega svona 0,7 lítrar. Þess má geta að vanalega ef þú kaupir stóra kók þá fylgir frí áfylling. Gaurinn sem seldi okkur kókið virtist samt sjá firringuna í þessu því hann fór líka að hlæja. Svo því að ég er auli og veit ekki muninn á salsa og guacamole þá fengum við heilt glas af guacamole með nachosinu. Við fórum því inn með næstum tvo lítra af gosi, nachos og glas af guacamole flissandi eins og fífl. Ég skil núna betur offituvandann hér í USA.  

Smá update

9 Okt

Freyja benti mér á að samskiptaleysi mitt við umheiminn væri óviðunandi og því ætla ég að blogga og láta vita að mestar líkur eru á að ná mér á msn/skype o.s.frv. milli 10 og 12 á miðviks-, laugardags- og sunnudagskvöldum. Aðrir dagar eru happaglappa. 

Af okkur er lítið að frétta. Dagarnir hafa æði mikið farið í slugs, hangs, lærdóm og uppvask, í þessari röð. Núna um helgina var röðinni reyndar snúið við þannig að við erum aftur komin á rétt ról. Skólinn byrjar bara vel og samnemendurnir eru flestir að ég held mjög fínir. Á föstudaginn var Happy hour hjá deildinni og eftir það var mér boðið á einhverja kínverska mánahátíð. Hvernig mér tekst að troða mér inn á allar asískar uppákomur er óskiljanlegt en svona er þetta bara.

Seinustu helgi kom Palli í heimsókn og fórum við með honum til Philadelphiu og New York. Palli og Geir fóru á shopping spree og keyptu fullt af flottum fötum en ég passaði hvern aur og keypti bara afmælisgjöf handa systu. Heimisson kom með fullt af íslenskum matvælum og drykkjum svo við ættum ekki að vera slæm af heimþránni. Reyndar föttuðum við um daginn að Wholefoods hérna í Princeton selja bæði íslenskan lax, lambalæri og skyr á okurverði svo sá möguleiki er fyrir hendi. Palli mun sennilega drepa mig fyrir að setja þessa mynd á netið en við keyptum hárkollur fyrir halloween og var þessi mynd tekin við það tækifæri. Verkið kýs ég að kalla hinn rauðhærða Eirík Fjalar:

Næsta verk heitir hinn rauðhærði Eiríkur Hauks:

Uppgjör septembermánaðar

24 Sep

Síðan ég kom hingað út hef ég verið mjög löt við skrif og á það bæði við tölvupósta og færslur. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að vegna leti og seinagangs gat ég ekki nettengt tölvuna fyrr en í seinustu viku. Var ég því upp á náð Geirs komin hvað varðar nettengsl og kunni því illa, vægast sagt. En nú hyggst ég bæta úr því að einhverju leyti.

Dagarnir hafa að mestu farið í stúss og slæping. Fyrstu vikuna fór ég og heimsótti Ragnheiði Helgu í New York og þakka ég henni gott heimboð. Þaðan skelltum við okkur í Six Flags og prófuðum nokkra rússíbana. Ég verð að viðurkenna að Ragnheiður er mér ofjarl hvað varðar rússíbana og þó mér finnist ég nú ekki vera neinn kettlingur í þeim málum þá er ég það miðað við hana þar sem ég þorði ekki í svakalegustu tækin og það þurfti að neyða mig í þau næstverstu. Mæli samt með Six Flags, þetta var ógeðslega gaman.

Síðan er ég búin að fara með Geir á nokkra atburði hjá skólanum hans og ég fer ekki af því að skólasamkundur hér minna meira á opin hús í félagsmiðstöðvum heldur en partý hjá eðlilegu fólki (ekki það að ég hafi nokkurn tímann farið í þannig 😉 ) Við fórum líka óvart á „húsfund“ í hverfinu sem reyndist vera nefndin og við. Það er greinilega ekki lenska að mæta á húsfundi hér. Við héldum líka partý sjálf sem heppnaðist prýðilega þökk sé brennivíni og ísraelskum ipod með öllum eurovisionlögum sem gefin hafa verið út. Reyndar hurfu allir gagnkynhneigðir Bandaríkjamenn út með hraði þegar eurovisionlögin voru sett á fóninn en þar fyrir utan þá var þetta ótrúlega gaman. Myndir má sjá hér.

Nú og svo er ég búin að reyna að kynnast nágrönnum okkar. Það gengur frekar brösuglega. Við hliðina á okkur býr kínverskt par sem heldur upp öflugu félagslífi og spilaklúbbi með tilheyrandi ópum og skrækjum. Ég var því nokkuð viss um að þetta væri hresst fólk en svo reyndist ekki vera. Á móti býr indælis stúlka frá Alabama sem er í sama prógrammi og Geir. Afi hennar á byssu og hún kann margar góðar sögur frá Alabama. Skrítnasti nágranninn er svo kúrekinn. Kúrekinn er alltaf úti á verönd á nærjunum og heilsar að kúrekasið þegar við förum út með ruslið. Hann er að öllu leyti kúreki nema einu; hann blastar eurotechno fullum styrk og er meira að segja með dj-búr inni hjá sér. Ég held að annaðhvort sé hann geðveikt skemmtilegur eða fjöldamorðingi. Sjáum til.

Í seinustu viku var svo orientation í skólanum og mér líst mjög vel á þetta. Ég tek þrjá kúrsa og eitt seminar. Þetta er samt í rauninni bara 3 kúrsar þar sem seminarið felst einungis í því að það koma fyrirlesarar og segja okkur frá rannsóknum sínum. Eina sem nemendur þurfa að gera er að mæta.

Restin hefur svo farið í það að redda ökuskírteini, skoða bíla, pæla í almenningssamgöngum, fara í IKEA, læra að rata og annað leiðinlegt sem ég nenni ekki að skrifa um. Skriffinnskubrjálæðið hérna ýtir dálítið undir heimþrána en nú fer skólinn að byrja á mánudaginn svo það ætti að hverfa bráðum.

Á morgun erum við svo að fara til Atlantic City og á miðvikudaginn kemur herr Heimisson í heimsókn. Ég ætla að reyna að vera duglegri að blogga á næstu mánuðum.

Já og ef einhver vill fá innlit/útlit túrinn um íbúðina þá eru myndir hér. Þetta eru EFTIR myndir en ekki fyrir. Við erum að reyna að ná fram þessu rough háskólalúkki í staðinn fyrir Bree Van De Kamp lúkkið sem virðist ráða ríkjum sumstaðar hér í hverfinu.

Bling bling

6 Sep

Hér í Prinsatúni tíðkast, sem og á svo mörgum öðrum stöðum í heiminum, að skilja gamalt dót sem þú ætlar að henda en telur að geti ef til vill nýst öðrum eftir úti á gangstéttarbrún eða við hliðina á ruslagámi hverifins. Þar sem ég get verið nískari en andskotinn þá fylgist ég grannt með þeim ruslagámum og gangstéttarbrúnum sem ég geng fram hjá. Hingað til hef ég séð eftirfarandi muni:

  1. Bleikan stofustól
  2. 3 eldhúskolla með málningarslettum
  3. 15″ tölvuskjá
  4. 2 lampaskerma
  5. Ísskáp
  6. Gardínustöng, ennþá í pakkningunum
  7. Ofnskúffu
  8. 2 spariglös
  9. 1 bolla með áletruninni: Hot chocolate
  10. 2 bolla úr sparistelli Svíakonungs.

Já það er ekki á hverjum degi sem maður finnur hluta af sparistelli hans hátignar Karls Gústafs Svíakonungs og því gat ég ekki annað en hirt bollana. Þeir eru mjög fallegir og munu vafalaust vekja talsverða lukku hjá upprennandi bandarískum úthverfafrúm sem ég ætla að bjóða í kaffi til mín. Þessir gullmolar verða vaskaðir vandlega upp og hafðir til sýnis, það er víst.

228 C Halsey Street

28 Ágú

Jæja, loksins ber bloggið nafn með rentu. Loksins komin út til Geirs. Ég er eiginlega ekki búin að
fatta þetta. Finnst eiginlega meira eins og ég sé í heimsókn hjá
einhverjum.

Það var erfitt að kveðja alla og selja bílinn. Mér finnst ótrúlegt að núna verði engir fleiri ísrúntar og trúnóar í yarisnum 😦 En hann er í góðum höndum hjá henni Andreu minni, sem reyndar klessti hann næstum við að bakka út úr innkeyrslunni en fall er fararheill.

Ferðin gekk vonum framar og ég komst að því að þrátt fyrir allan
hræðsluáróðurinn þá er ekkert mál að vera með dálítinn handfarangur
(ég svindlaði „smá“ auka í gegn). Það er greinilegt að ég er komin á aldur
til að fara út í heim því að í Leifsstöð sá ég þónokkuð af krökkum sem
ég man eftir úr verkfræðinni og MR sem voru að flytja út. Það er líka komið
ókeypis þráðlaust net í flugstöðinni svo ekki leiddist mér þar.

Þegar ég lenti á JFK þá tók við vegabréfsskoðunin. Vanalega hef ég
lent á einhverjum málgefnum körlum sem spyrja mig spurninga eins og
hvar ætlaru í skóla? hvar ætlaru að búa? og svo framvegis en þessi var
í einhverju þagnarbindindi því hann var alveg þögull allan tímann og
sagði hvorki hæ né bæ. Mér fannst það frekar óþægilegt. Jæja svo ákvað
ég láta vita af harðfiskinum svona til öryggis en karlinn í tollinum
vildi ekki sjá að ég opnaði pokann, skyldi hann hafa reynslu af „dried
fish“? Geir kom svo og tók á móti mér á flugvellinum og voru það
miklir fagnaðarfundir eins og við var að búast. Við fengum strax
leigubíl og komumst með fyrstu lestinni hingað heim í Princeton.
Ferðin tókst eiginlega bara alveg ótrúlega vel! Ég er samt fegin að ég þurfti ekki að drösla öllum töskunum ein.

Þegar við komum hingað í íbúðina þá sýndi Geir mér slotið og verð ég
bara að segja að hann hefur staðið sig alveg ótrúlega vel að setja
allt saman og flytja dót og raða upp. Það er næstum því orðið
heimilislegt hérna, það vantar bara smáhluti eins og blóm og myndir og
þá verður þetta verulega fínt. Myndir og vídjó koma upp á næstu vikum fyrir áhugasama.

Í dag ætla ég að pakka upp úr töskunum, taka aðeins til (já það kemur
sennilega flestum á óvart), skoða mig aðeins um í bænum og reyna að
læra að rata.

Írlandsför 2006

26 Júl

Ég á ógeðslega erfitt með að skrifa ferðasögur. Það er hrein pína og þær enda alltaf í stílnum sem mátti ekki einu sinni skrifa eftir í 7. bekk í grunnskóla. Ég byrja og reyni að skrifa en það endar alltaf í þessu: Svo fór ég þarna út af þessu, svo þegar það var búið gerðum við þetta út af þessu <innsett mynd af þessu>. Það var nú aldeilis gaman. Það er alveg sama hversu áhugaverða hluti ég geri þegar kemur að ferðasögunni þá gleymast þeir og leiðinlegu hlutirnir flæða út og heimta sinn stað í frásögninni. Sama má segja um kortaskrif, þau eru mér álíka erfið. Ég gæti kannski sent símskeyti frekar svo spör er ég á orð í kortum. Vanalega endar þetta á því að ég skrifa lýsingu á einhverju eða bara einhverja steik út í loftið. Samt langar mig alltaf að skrifa ferðasögurnar því að seinna er gaman að lesa þær til að rifja upp og sjálfri finnst mér sjúklega gaman að lesa ferðasögur annarra. Í þetta sinn ætla ég að reyna að segja frá ferðinni okkar Ölmu til Írlands. Ferðin byrjaði á óguðlegum tíma á þriðjudagsmorguninn og endaði núna aðfaranótt mánudags. Í London gerði ég ekkert nema versla og fara á Dali sýningu. Ég varð dálítið heilluð af honum enda stórundarlegur maðurinn.

Heppnin lék við okkur allan tímann, við náðum öllum lestum, rútum og flugvélum og fengum meira að segja gott hótelherbergi í London fyrir engan pening (ég er enn að ná því). Bæði í London og Dublin urðum við fyrir óeðlilega mikilli áreitni öskukarla og get ég því næstum fullyrt að ég eigi öskukarl í hverri borg. Ég skil eiginlega ekki hvernig ég fór að því að ná í heimspeking og snyrtipinna þar sem ég virðist hafa mjög stefnumiðaðan kynþokka sem beinist eingöngu að ruslakörlum og engum öðrum. Best að halda í hann 😉

 

Þegar við stigum út úr flugvélinni var það fyrsta sem við sáum eldrauðhærður flugvallarstarfsmaður. Það var hápunktur ferðarinnar. Djók, en án gríns þá er þetta með rauðhært fólk á Írlandi bara mýta. Eftir það var allt niður á við. Ég var búin að kvíða dálítið fyrir Dublin þar sem allir hvítnuðu í framan og jesúsuðu sig þegar þeir heyrðu að við myndum gista hjá Rósu. Hún var samt voðablíð við okkur og held ég að kærastinn hennar hafi haft góð áhrif á hana. Seinasta daginn var samt aðeins farið að glitta í hið rétta eðli en ekkert til að kvarta yfir í rauninni. Þau skötuhjú drifu okkur beint af flugvellinum á írskan pöbb og sýndu okkur svo dorgandi heimamenn. Daginn eftir fóru með okkur út í sveit og sýndu okkur munkaklaustursrústir og írska náttúru, kvöldinu var svo slúttað á írskri danssýningu og…írskum pöbb. Mér fannst Guinnessinn góður en Alma fékk sér bara Heineken…frekar léleg Alma verð ég að segja. Þessir pöbbar voru annars voða Celtic og Dublinerslegir.

Næsta dag röltum við um borgina og skoðuðum en þar sem við erum báðar miklir letitúristar þá enduðum við daginn á spilamennsku í almenningsgarði. Ekki töff en mjög gaman. Spilið verður spilað grimmt um verslunarmannahelgina á Tálknafirði.

Við hittum engil

Já, síðan fórum við auðvitað í búðir að kvenfélagssið og skil ég vel afhverju Dublin hefur verið sótt heim af saumaklúbbum gegnum aldirnar. Þetta var ekta þannig stemmning. Rósa dreif okkur á djammið eitt kvöldið og það var eiginlega svo leiðinlegt að ég nenni ekki að skrifa um það. Stelpan átti dálítið erfitt með að halda sig á einum stað þar sem á fyrsta staðnum var of troðið, á öðrum staðnum var of lítið af fólki, á þriðja staðnum var leiðinlegt og þar fram eftir götunum. Kvöldinu björguðu götulistamenn sem spiluðu þjóðlagatónlist í anda Stórsveita Nix Noltes og þeir voru bara ansi góðir. Alma ætlar að giftast gítarleikaranum, þið vitið af því bara.

 

En já, þetta var ferðin í mjög grófum dráttum. Smáatriði og fyndnar sögur verða reifaðar í Ölmubloggi þegar hún kemur heim.

Myndir eru hér.

’cause I’m a lady you see

26 Apr

Nokkrir (2) hafa komið að máli við mig og spurt hvar ég sé eiginlega búin að vera seinustu vikurnar. Vil ég árétta að ég er ekki dauð og lenti ekki í slysi. Hins vegar get ég verið afbrigðilega ófélagslynd og þar að auki fór til London í 4 daga til að kynda undir anglophiliu minni (sem felst í því að dýrka alla breska karlkyns leikara yfir 50 og að sama skapi fá gæsahúð af spennu við að heyra orðin ta og cheers). Get þó verið stolt yfir því að hafa hvorki farið inn á Starbucks (sem ku vera evil corporation) né hafa fallið í 3 for 2 gryfjuna en fyrir þá sem ekki þekkja þá er hægt að kaupa 3 kiljur á verði 2 í flestum bókabúðum í the UK og seinast þegar ég fór þangað þá nýtti ég mér þetta tilboð 6 sinnum á jafnmörgum dögum. Ég er því líka með bibliophiliu. Annars er ég að hugsa um að hætta að vera á netinu því það leiðir mig alltaf út í einhverjar persónunjósnir og rugl.

Drasl

7 Apr

Nú er meira að segja mér sjálfri nóg boðið. Í dag ætla ég að taka til í bílnum mínum og hver sá sem fær að setjast inn í hann áður en ég þríf hann fær 500 kall. Hah, nú verð ég.

Ekki Humpie minn en nokkuð nærri lagi þó