Sarpur | 1:47

Fimm sérkennilegir ávanar

23 Jan

Systir Alma skoraði á mig í þessum nýja spænska bloggleik og þar sem hún kallaði mig svo fallegu nafni hef ég ákveðið að taka áskoruninni.

  1. Mér finnst mjög þægilegt að sofa eins og froskur, þ.e. á bakinu með iljarnar saman og fæturna bogna. Þar sem þetta þarfnast meira pláss en vanalegar svefnstellingar er ég ekki vinsæll rúmfélagi. Ég nudda líka saman tánum þegar ég er að sofna. Önnur ástæða fyrir óvinsældum.
  2. Þegar það er take-out og ég fer með að sækja matinn þá byrja ég alltaf að narta í hann í bílnum. Þess vegna þegar það er keypt Nings þá eru súrsætu rækjurnar oft frekar fáar þegar heim er komið og hið sama gildir um franskar kartöflur. Hef lent í heiftarlegum rifrildum útaf þessum ávana.
  3. Nú og þegar kjöt er á borðum reyni ég að láta sósuna aldrei koma við hvorki grænmetið né kjötið. Ef einhver annar skammtar á diskinn minn og brýtur þessa ósögðu reglu finn ég til frekar mikillar gremju. Sennilega er það ekki tilviljun að Rain Man er í uppáhaldi hjá mér.
  4. Þegar ég er að einbeita mér þá rek ég tunguna lítillega út. Hins vegar þegar ég er alls ekki að einbeita mér þá byrja ég að sleikja munnvikin. Þetta síðara atriði hefur valdið vandræðalegum viðreynslumisskilningi.
  5. Handklæði vil ég helst bara nota einu sinni og þvo þau svo. Þessi ávani hefur valdið ófáum prinsessuathugasemdum.

Skora á Geir og Ásdísi því ég veit fyrir víst að þau eru bæði með stórundarlega ávana, Guðrúnu stóru litlu systur mína því hún hefur ekki bloggað síðan í fyrra, Guðnýju litlu frænku því að hún segir mig skrítna í hvert skipti sem við hittumst og að lokum Bjarnheiði því ég held hún laumi vafalaust á nokkrum góðum, t.d. að skilja alltaf eftir grillgrindur í annarra manna húsum o.s.frv.